Fiskikör á floti norðaustur af Dalatanga. Ljósm. Þorgeir Torfi Árnason

Þegar ísfisktogarinn Gullver NS var á leið á miðin frá Seyðisfirði í lok septembermánaðar ráku skipverjar augun í þrjú fiskikör á floti norðaustur af Dalatanga. Þegar var tekin ákvörðun um að ná körunum um borð og nýta þá aðgerð sem björgunaræfingu, en aðstæður við að “bjarga körunum” eru sambærilegar þeim sem ríkja þegar manni er bjargað úr sjónum. Körin voru tekin að hlið skipsins, netakúlu kastað til að halda þeim við síðuna og loks var húkkað í hífingarauga til að hífa þau um borð. Ekki var nógu gott í sjóinn til að setja út léttabát þannig að samskipti skipstjóra og áhafnar við þessa aðgerð skipti sköpum. Segja má að umrædd “björgunaraðgerð” hafi gengið vel og náðust öll körin um borð á 45 mínútum. Síðasta karið náði að reka 0,4 sjómílur á meðan á aðgerðinni stóð og á því sést að mikilvægt er að aðgerðir á borð við þessa gangi hratt og markvisst fyrir sig.

Niðurstaðan var sú að þessi aðgerð gekk vel og kom í ljós að allir sem tóku þátt í henni voru meðvitaðir um hlutverk sitt. Samskipti á milli manna voru snurðulaus og var það mat áhafnar að hér hefði verið um gagnlega æfingu að ræða.

Körin hífð um borð í Gullver NS. Ljósm. Þorgeir Torfi Árnason