Landað úr Gullver NS. Ljósm. Ómar Bogason

Ísfisktogarinn Gullver landaði 74 tonnum á Seyðisfirði um helgina. Haldið var til veiða nánast strax að löndun lokinni. Heimasíðan ræddi við Hjálmar Ólaf Bjarnason skipstjóra og spurði fyrst hvar veitt hefði verið. “Við fórum vestur á Hala. Það gekk mjög erfiðlega þar til að byrja með og aflinn sáralítill. Síðan þurftum við að flýja út af ís og þá var farið í Víkurálinn. Um kvöldið köstuðum við síðan í Nætursölunni og þar var hörkukarfaveiði. Megnið af aflanum fékkst þarna í Nætursölunni en þar má veiða frá átta að kvöldi til átta að morgni. Við héldum á ný til veiða fljótlega að löndun lokinni og það var haldið vestur á Hala á ný. Nú hefur hann snúið sér og þá hörfar ísinn af svæðinu. Í þessum töluðu orðum erum við á kantinum vestan við Halann og vonandi á þetta eftir að ganga betur þar en í síðasta túr,” segir Hjálmar Ólafur.