Garðar Bachmann Þórðarson kokkur með bókina

Nýlega kom út bókin Brak og brestir en höfundur hennar er Garðar Bachmann Þórðarson fyrrverandi kokkur á togaranum Gullveri NS frá Seyðisfirði. Undirtitill bókarinnar er Matur og menn um borð í togaranum Gullveri NS 12. Garðar fékk Guðmund Snæ Guðmundsson til að brjóta um bókina og annast útlit hennar en Guðmundur er grafískur hönnuður. Í bókinni eru birtar fjölmargar myndir sem Garðar tók um borð í skipinu og birtar uppskriftir að vinsælum réttum sem kokkurinn bauð áhöfninni upp á. Að auki er saga skipsins birt í stuttu máli. Gullver var smíðaður í Noregi árið 1983 fyrir útgerðarfélagið Gullberg á Seyðisfirði en Síldarvinnslan festi kaup á útgerðinni árið 2014. Gullberg var síðar sameinað Síldarvinnslunni og siglir skipið nú undir merkjum hennar.

Heimasíðan ræddi við Garðar og spurði hann hvernig hugmyndin að útgáfu bókarinnar hefði vaknað. “Ég réðist sem kokkur á Gullver árið 2020 og var þar um borð fram í marsmánuð 2023 eða í rétt tæp þrjú ár. Ég upplifði strax skemmtilega stemmningu og mér fannst skipta máli að varðveita hana með einhverjum hætti. Stemmningin var forvitnileg enda hafði ég aldrei áður verið á sjó en margir í áhöfninni höfðu verið þarna í óratíma. Þetta var öðruvísi líf en ég hafði vanist í landi því staðreyndin var sú að ég þekkti bara hefðbundna níu til fimm vinnu. Ég var ekki búinn að vera lengi um borð þegar sú hugmynd kviknaði að gefa út bók sem væri tvennt í senn; annars vegar örlítil lýsing á skipinu og lífinu um borð og hins vegar mataruppskriftir. Þá þurfti að taka myndir til að varpa ljósi á umrædda stemmningu. Ég þurfti að fá aðstoð við gerð bókarinnar og þá hafði ég samband við Guðmund Snæ og hann á mikið í þessari bók,” segir Garðar.

Gullver NS. Ljósm. Þorgeir Baldursson

Í formála bókarinnar segir Garðar eftirfarandi: “Eftir nokkra mánuði, þegar ég hafði kynnst áhöfn og lífinu á sjónum, varð mér ljóst að nánast það eina sem áhöfnin hugsaði um var: Hvað er í matinn? Það eru stórtíðindi hvað er á borðum í hádeginu og á kvöldin. Tala nú ekki um ef hent er í góða brauðtertu með kaffinu. Ef á að líkja þessu við eitthvað þá svipar þessu helst til hins danska trøstespis sem gæti þýtt huggunarmatur á íslensku. Trøstespis er mikið notað hugtak á elliheimilum í Danmörku. Í leiðindum sínum hlakkar gamla fólkið til að fá eitthvað gott að borða. Gerir lífið aðeins bærilegra. Ekki ólíkt andrúmsloftinu á sjónum. Starf kokksins er því háalvarlegt og ekkert má út af bera. Því fannst mér rétt að hafa uppskriftirnar heimilislegar, heiðarlegar og í stíl við það sem þeim um borð finnst gott.”

Kjötbollur voru vinsæll réttur um borð

Uppskriftirnar í bókinni eru tólf talsins og býsna fjölbreyttar. Þar má finna allt frá kjötbollum til kóteletta auk fjölbreyttra fiskrétta. Þegar Garðar er spurður um samskipti kokksins við áhöfnina verður hann hugsi dálitla stund en segir síðan: “Almennt voru samskiptin góð enda reyndi ég að leggja mig fram. Áhersla var lögð á að hafa matinn vel útilátinn og næringarríkan og hollan. Ég forðaðist til dæmis að nota unnar kjötvörur í ríkum mæli. Það þarf að hafa það í huga að togarasjómenn vinna erfiðisvinnu og þurfa að fá góðan mat. Þarna var unnið í gamaldsgs eldhúsi og það var ögrandi verkefni að glíma við matseldina. Auðvitað er ekki hægt að geðjast alltaf öllum. Til dæmis fór matarsmekkur manna töluvert eftir aldri. Einstaka sinnum var boðið upp á kálböggla og þeir eldri kunnu vel að meta það en hinir yngri vildu nú frekar hamborgara. Staðreyndin er sú að þegar allir eru ánægðir með matinn þá lifnar heldur betur yfir messanum. Það versta sem getur komið fyrir kokkinn er að vera afétinn. Það er í sannleika sagt skelfilegt og nánast jafn vont og að verða kaffilaus í miðjum túr.”