Polar Amaroq að veiðum. Ljósm. Sigmundur av Teigum

Í morgun kom Beitir NK með 2.600 tonn af kolmunna til Neskaupstaðar og grænlenska skipið Polar Amaroq með 1.200 tonn af loðnu. Löndun úr báðum skipum hófst strax. Tómas Kárason, skipstjóri á Beiti, sagði að túrinn hefði verið ágætur. “Veiðarnar hjá okkur gengu vel en við fengum tvær brælur sem trufluðu veiðarnar verulega. Önnur þeirra gerði það að verkum að ekkert var gert í 48 tíma. Minnsta holið í túrnum gaf 250 tonn en það stærsta 780 tonn. Það var misjafnlega lengi dregið eða frá tveimur tímum og upp í tólf. Í stærsta holinu var einungis dregið í tvo tíma og það var þannig að skipin sem drógu á svæðinu bæði á undan og eftir okkur fengu lítið. Þarna hittum við vel á það. Veiðisvæðið var um 400 mílur suðsuðvestur af Rockall eða 227 mílur vestur af syðsta odda Írlands. Þetta eru 770 mílur suður af Ingólfshöfða og 850 mílur frá Neskaupstað. Það var mjög góð veiði þarna eftir að við lögðum af stað í land og bæði Börkur og Vilhelm Þorsteinsson eru til dæmis á landleið með mjög góðan afla,” sagði Tómas.

Geir Zoёga, skipstjóri á Polar Amaroq, lét vel af veiðiferðinni. “Við fengum þennan afla í sjö köstum á Búðahrauni suður af Snæfellsnesi. Þetta er fínasta loðna og hrognafyllingin er 19 – 20%. Það var svolítið að sjá þarna og á landleiðinni keyrðum við yfir flottar torfur á Breiðafirðinum. Eins urðum við varir við loðnu út af Skagagrunni á landleiðinni og þar var mikið af hval. Við eigum eftir 400 – 500 tonn af kvótanum þannig að við förum annan loðnutúr. Það lyftist svo sannarlega brúnin á mönnum í áhöfninni þegar loðnan fór að streyma um borð. Það er nánast mannréttindabrot að fá ekki að njóta loðnulyktar hvert einasta ár. Ég geri ráð fyrir að það taki nokkurn tíma að landa enda lögð áhersla á að flokka loðnuna og vinna hana alla til manneldis,” sagði Geir.