
Um nýliðna helgi komu kolmunnaskipin Beitir NK, Börkur NK og Vilhelm Þorsteinsson EA til löndunar í Neskaupstað að aflokinni veiðiferð í færeysku lögsöguna. Beitir landaði 1.000 tonnum, Börkur 1.300 tonnum og Vilhelm Þorsteinsson 1.400 tonnum. Að sögn Hafþórs Eiríkssonar verksmiðjustjóra er um ágætt hráefni að ræða. Verksmiðjan hóf vinnslu á sunnudagsmorgun og gengur hún vel.
Heimasíðan ræddi stuttlega við Ólaf Gunnar Guðnason skipstjóra á Beiti og spurði fyrst hvernig veiðin hefði gengið fyrir sig. “Það var ekki mjög mikið að hafa að þessu sinni. Holin hjá okkur gáfu frá 40 tonnum og upp í 350 tonn og það var yfirleitt lengi dregið. Veitt var bæði sunnan og vestan við Færeyjar, mest í Ræsinu vestan við eyjarnar. Þó ekki hafi verið mikill kolmunni á ferðinni þarna núna þá getur það breyst á skömmum tíma. Auðvitað bíðum við frétta af nánari loðnuleit og notum tímann til að skipta um togvíra. Næst á dagskrá gæti verið loðna en eins þurfa menn að vera tilbúnir í að veiða kolmunna niður við Rockall,” sagði Ólafur Gunnar.