Barði NK er að landa kolmunna í dag. Ljósm. Smári Geirsson

Barði NK kom til Neskaupstaðar í morgun með 1.600 tonn af kolmunna. Skipið var átta daga á miðunum og var slæmt veður megnið af tímanum. Þorkell Pétursson skipstjóri segir að töluvert hafi þurft að hafa fyrir kolmunnanum í þessari veiðiferð. “Við vorum í Rósagarðinum í íslenskri lögsögu allan túrinn. Tekið var eitt hol á dag þannig að holin voru átta talsins. Dregið var frá 10 tímum og upp í tæpan sólarhring. Afli í holi var frá 100 tonnum og upp í 270. Bátarnir voru almennt að fá 10 – 15 tonn á togtíma en það voru mest fimm bátar að veiðum á þessum slóðum. Nú er veiðin eitthvað að hressast í færeyskri lögsögu og þegar síðast fréttist voru íslensku bátarnir komnir þangað,” segir Þorkell.