Jón Már Jónsson, sem lengi hefur verið yfirmaður landvinnslu hjá Síldarvinnslunni og átt sæti í framkvæmdastjórn félagsins, lét af störfum þann 1. ágúst sl. Þó mun Jón vera forstjóra og yfirmönnum fiskimjölsverksmiðja og fiskiðjuvers innan handar til febrúarloka á næsta ári. Í tilefni af þessum tímamótum þótti tilhlýðilegt að heimasíðan tæki viðtal við Jón og brást hann vel við viðtalsbeiðninni.
-Hvenær hófst þú að starfa hjá Síldarvinnslunni?
Eins og fjölmörg norðfirsk ungmenni byrjaði ég snemma að vinna hjá Síldarvinnslunni. Ég var líklega 14 ára þegar ég vann fyrst sumarlangt í frystihúsinu. Mig minnir að ég hafi unnið þar í þrjú sumur og líkaði vel.
-Þú ert menntaður vélstjóri og vélvirki. Tengdist menntunin ef til vill áhuga á sjómennsku?
Þegar ég hafði lokið landsprófi fór ég í Menntaskólann í Kópavogi haustið 1973. Að fyrsta vetrinum í skólanum loknum fékk ég pláss á Víði NK sem þá var á síld í Norðursjónum. Mér líkaði afar vel á sjónum og fannst flest sem tengdist sjómennskunni spennandi. Þetta var svo skemmtilegt að ég fór ekkert í skólann um haustið en var áfram á Víði. Það var meiningin að halda áfram menntaskólanáminu síðar en svo heillaður var ég af öllu sem snerti sjómennskuna að ég breytti um kúrs og skráði mig í Vélskóla Íslands. Á þessum tíma velti ég fyrir mér öllum þeim tækifærum sem sjómennskan bauð upp á. Mér þóttu veiðar spennandi en jafnvel enn meira spennandi þótti mér að eiga kost á að ráða mig á fragtara og sigla um öll heimsins höf. Ég hafði mikinn áhuga á að skoða mig um í heiminum og víkka sjóndeildarhringinn. Á milli bekkja í Vélskólanum var ég á ýmsum skipum, meðal annars á Síldarvinnsluskipi. Ég átti erfitt með að bíða með að ráða mig á fragtara og eftir þriðja bekk í Vélskólanum tók ég árs hlé í náminu og fór á Mælifellið sem var í fragtsiglingum. Að skólanum loknum réðst ég á Mælifellið á ný og var reyndar einnig um tíma á Stapafellinu. Mælifellið sigldi víða. Það var farið á Norðurlöndin, í Miðjarðarhafið, til Þýskalands, Hollands, Belgíu og Rússlands svo eitthvað sé nefnt. Ég var heppinn að vera á Mælifellinu vegna þess að hafnirnar voru margar sem komið var til og eitthvað nýtt mætti manni í hverri höfn.
-Það kom að því að þú hófst störf á Síldarvinnsluskipum. Hvenær gerðist það?
Ég var á Mælifellinu og kom austur í smáfrí árið 1981. Þá vantaði vélstjóra á togarann Birting og ég var beðinn um að redda málunum. Ég sló til og fyrsta veiðiferðin er alveg ógleymanleg. Við lentum í hörkufiskiríi og fengum 170 tonn í þriggja daga túr. Þetta var svo sannarlega spennandi. Fljótlega eftir þetta festi Síldarvinnslan kaup á Beiti og þá réðst ég á hann og sagði upp á Mælifellinu. Beitir var í upphafi dæmigert uppsjávarskip en síðar var honum breytt á ýmsan veg. Það var sett skutrenna á hann og hann varð sannkallað fjölveiðiskip. Auk uppsjávarveiðanna lagði hann stund á bæði bolfisk- og rækjuveiðar. Komið var upp búnaði um borð til að frysta aflann og salta. Fyrir vélstjóra voru verkefnin býsna fjölbreytt um borð í Beiti og alltaf eitthvað nýtt að gerast enda skipið oft kallað Breytir. Ég var vélstjóri á Beiti til ársins 1989 en fór þá í land í þeim tilgangi að ljúka sveinsprófi í vélvirkjun á vélaverkstæði Dráttarbrautarinnar. Eftir að sveinsprófinu var lokið starfaði ég áfram á vélaverkstæðinu og gegndi meðal annars starfi verkstjóra.
-Fórst þú ekki aftur á sjóinn eftir þetta?
Jú,það kom að því. Árið 1993 var ég beðinn um að fara til Spánar og fylgjast með smíði rækjufrystitogarans Blængs sem Síldarvinnslan átti þar í smíðum. Ég réðst síðan sem vélstjóri á Blæng og var þar um borð í ein tvö ár.
-Hvað var svo næst á dagskránni hjá þér?
Árið 1995 var ég ráðinn verksmiðjustjóri fiskimjölsverksmiðju Síldarvinnslunnar í Neskaupstað en ég tók við því starfi af Freysteini Bjarnasyni. Þegar ég tók við starfinu stóðu miklar framkvæmdir yfir í verksmiðjunni. Nýjum tækjum og búnaði var komið fyrir og má þar meðal annars nefna tvo heitloftsþurrkara, reykskiljur, kæliturna, mjölblandara, mjölkæli og mjölkvarnir. Þá var einu þrepi bætt við soðkjarnatæki verksmiðjunnar. Það þurfti að byggja nýtt hús undir heitloftsþurrkarana og komið var upp nýrri stjórnstöð í verksmiðjunni og þar með hóf tölvutæknin innreið sína. Þetta voru ögrandi verkefni sem mörkuðu öll stór framfaraskref.
Hjá Síldarvinnslunni var mikið að gerast á sviði fiskimjölsiðnaðar á næstu árum. Síldarvinnslan eignaðist verksmiðjuna í Sandgerði og árið 2003 runnu Síldarvinnslan og SR-mjöl saman í eitt fyrirtæki en alls tilheyrðu fimm verksmiðjur SR-mjöli og ein að hluta til viðbótar. Það voru margvísleg verkefni sem komu upp í tengslum við fiskimjölsframleiðsluna á næstu árum og starfaði ég við þau. Það þurfti að móta starfsemina til framtíðar með hliðsjón af hráefnisöflun.
-Síðan verður verksvið þitt víðtækara, er það ekki rétt?
-Jú, árið 2008 breyttist starfssviðið. Þá var mér falin stjórn á starfsemi fiskiðjuversins í Neskaupstað auk fiskimjölsverksmiðjanna og starfsheitið yfirmaður landvinnslu kom til. Það var ekki síður áhugavert að sinna verkefnum tengdum fiskiðjuverinu en verkefnum sem tengdust fiskimjölsverksmiðjunum. Uppbyggingin í fiskiðjuverinu hefur verið mikil og tengdist ekki síst tilkomu makrílveiðanna og manneldisvinnslu á makríl.
Eitt af einkennum uppsjávarveiða eru sveiflur og sveiflur hafa haft mikil áhrif á þau störf sem ég hef sinnt eftir að ég varð verksmiðjustjóri og síðar yfirmaður landsvinnslu. Síldarvinnslan hafði frumkvæði á sviði kolmunnaveiða og fyrir fiskimjölsiðnaðinn hefur kolmunninn skipt afar miklu máli á síðari árum. Veiðar á norsk-íslenskri síld hófust á ný eftir langt hlé árið 1994 og hefur vinnsla á þeirri síld verið afar mikilvæg síðan. Tilkoma makrílveiðanna breytti miklu. Makríllinn fór fyrst að veiðast sem meðafli í síldveiðum árið 2006 en í kjölfarið hófust beinar makrílveiðar. Til að byrja með fór makríllinn mest í framleiðslu á mjöli og lýsi en að því kom að aukin áhersla var lögð á manneldisvinnslu. Þegar síðan makrílkvóta var úthlutað á hvert skip árið 2010 jókst enn meira áhersla á manneldisvinnsluna. Til að vinna makrílinn til manneldis þurfti að ráðast í heilmiklar fjárfestingar.
-Hefur uppbygging í fiskimjölsverksmiðjum og fiskiðjuveri verið mikil hin síðari ár?
Já, svo sannarlega. Bæði stjórn og æðstu stjórnendur Síldarvinnslunnar hafa sýnt mikla framsýni og metnað. Það ríkir einlægur vilji hjá þessu fólki að byggja upp vinnslustöðvarnar þannig að þær séu í fremstu röð. Þá má ekki gleyma fjárfestingum í veiðiskipum. Uppsjávarskip fyrirtækisins eru afar vel búin og geta komið með kældan afla að landi þannig að hann henti vel til vinnslu. Fyrir manneldisvinnsluna skiptir það sköpum að aflinn sé vel kældur og það er einnig mikilvægt fyrir fiskimjölsverksmiðjurnar. Það hefur verið einstaklega ánægjulegt að starfa með þeim sem hafa haldið um stjórnvölinn hjá fyrirtækinu og þá ekki síður að starfa með hinu almenna starfsfólki. Það er ekki nóg með að starfsfólkið hafi verið vinnusamt heldur hefur það einnig verið bráðskemmtilegt og virkilega gefandi að umgangast það. Ég held að Síldarvinnslan hafi verið einstaklega heppin með starfsfólk í gegnum tíðina.
-Áttu ekki eftir að sakna starfsins?
Sem betur fer á ég eftir að sakna margs sem tengist starfinu. Ég er þó ekki alveg hættur og verð viðloðandi fram í febrúar. Til þess tíma verð ég alltaf klár og til viðtals. En nú er maður orðinn 67 ára og kominn tími til að sinna ýmsu sem kannski hefur setið á hakanum. Sem betur fer hefur lífið upp á svo margt að bjóða.