
Ísfisktogarinn Jóhanna Gísladóttir GK og línuskipin Páll Jónsson GK og Sighvatur GK lönduðu öll í Grindavík snemma í vikunni. Jóhanna Gísladóttir landaði á mánudag og var aflinn að mestu þorskur og karfi. Einar Ólafur Ágústsson skipstjóri sagði að veitt hefði verið fyrir vestan og heldur dauft væri yfir miðunum þar um þessar mundir. ”Við byrjuðum í Reykjafjarðarál og fengum megnið af þorskinum þar á einum degi. Síðan var farið að leita að ýsu og ufsa á grunnslóðinni og á austurhorni Víkuráls en við fengum einungis karfa þar. Ég tel víst að við höldum austur fyrir land í næsta túr í von um að gangi betur þar,” sagði Einar Ólafur.
Páll Jónsson landaði tæpum 100 tonnum á mánudaginn og var Jónas Ingi Sigurðsson skipstjóri ánægður með túrinn. ”Þetta gekk bara vel og veðrið var ágætt nema á laugardaginn þá var leiðindakaldi. Það voru fimm lagnir í túrnum, fjórar á Holtshrauni og ein suður á Tá. Áhersla var lögð á að veiða löngu og keilu og það gekk vel. Í aflanum voru 57 tonn af löngu og 24 af keilu. Auðvitað verður að sinna þessum tegundum eins og öðrum. Það var haldið til veiða á ný strax að kvöldi löndunardags,” sagði Jónas Ingi.
Á þriðjudaginn kom Sighvatur til löndunar og var aflinn 65 tonn. Aðalsteinn Rúnar Friðþjófsson skipstjóri var ágætlega sáttur. ”Við vorum austur á Mýragrunni og það voru einungis teknar rúmar fjórar lagnir. Helmingur aflans var ýsa á móti löngu, keilu og þorski. Þetta er allt mjög stór og fallegur fiskur. Það er býsna langt að fara þarna austur eftir eða um 20 tíma stím hvora leið. Veður var þokkalegt en við fengum þó bölvaðan storm og skítabrælu í einn sólarhring eða svo. Haldið var til veiða á ný strax á þriðjudagskvöld,” sagði Aðalsteinn Rúnar.