
Ísfisktogarinn Jóhanna Gísladóttir GK kom til Grindavíkur á föstudagsmorgun til löndunar. Heimasíðan ræddi stuttlega við Einar Ólaf Ágústsson skipstjóra og spurði frétta af veiðiferðinni. “Við vorum að veiðum í Kolluálnum og aflinn var 42 tonn, mest þorskur og karfi. Það var semsagt róleg veiði, dálítið kropp yfir birtutímann en lítið að hafa í næturnar. Það var hundleiðinlegt veður drýgstan hluta veiðiferðarinnar, skásta veðrið var fyrsta daginn en svo versnaði það. Við vorum að veiðum í tæplega þrjá sólarhringa í þessum túr. Fiskurinn sem fékkst í túrnum var býsna stór og góður, einkum fengum við fallegan þorsk,” segir Einar Ólafur.
Jóhanna Gísladóttir hélt á ný til veiða að löndun lokinni á föstudaginn.