
Nú líður að lokum veiða á norsk – íslenskri síld austur af landinu. Beitir NK kom til Neskaupstaðar í morgun með 1050 tonn og hófst strax vinnsla á aflanum í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar. Fékk Beitir aflann í Bakkaflóadýpinu. Heimasíðan ræddi í morgun við Geir Sigurpál Hlöðversson rekstrarstjóra fiskiðjuversins og spurði hvernig vinnslan gengi. ”Ég held að megi segja að hún gangi vel. Síldin sem nú berst að landi er heldur smærri en sú sem fékkst fyrr á vertíðinni og það þýðir að heldur minna af henni er heilfryst en meira flakað. Nú eru það tvö skip sem sjá okkur fyrir hráefni og það eru Beitir og Börkur. Börkur er nú að veiðum í Norðfjarðardýpinu og er að fiska mjög vel. Í fiskiðjuverinu er unnið á tvískiptum vöktum og upp á síðkastið hefur fólkið fengið helgarfrí,” sagði Geir Sigurpáll.