
Eins og venjulega hafa bæði línuskip Vísis landað í Grindavík nú í vikunni. Páll Jónsson GK kom til löndunar á mánudaginn og Sighvatur GK í morgun. Heimasíðan ræddi við skipstjórana og fékk fréttir af veiðiskapnum. Benedikt Jónsson, skipstjóri á Páli Jónssyni, lét þokkalega vel af sér enda sagði hann varla hægt að kvarta í þeirri veðurblíðu sem ríkt hefði að undanförnu. “Við vorum með 95 tonn og aflinn hefði kannski mátt vera örlítið meiri. Það var mest af löngu í aflanum eða 40% en þorskur var einungis um 25%. Við byrjuðum úti á Fjöllum en síðan var farið upp á Grjóthrygg og þaðan á Hólakant og á Skerin en um var að ræða fimm og hálfa lögn í heildina. Menn eru hressir um borð en segja má að nú sé að hefjast heldur óskemmtilegur tími hjá okkur línuköllunum en það er skraptíminn,” sagði Benedikt.
Aðalsteinn Rúnar Friðþjófsson, skipstjóri á Sighvati, talaði einnig um veðurblíðuna og sagði að þokan hefði létt mönnum lífið um borð því annars hefði orðið allt of heitt og erfitt að vinna. ”Við komum inn klukkan hálf sjö í morgun og aflinn er 120 tonn sem er fínt. Stærsti hluti aflans er langa eða um 70 tonn en þorskur er einungis um 20 tonn. Síðan er þetta bland af ýmsum tegundum. Við vorum að veiðum suður af Vestmannaeyjum; í Háfadýpinu, á Landsuðurhrauni og við Surtsey. Þarna fékkst aflinn í rúmum fimm lögnum. Annars var allt samkvæmt venju í túrnum og fátt markvert að segja,” sagði Aðalsteinn Rúnar.