Sighvatur GK á siglingu. Ljósm. Jón Steinar Sæmundsson

Línuskip Vísis, Páll Jónsson GK og Sighvatur GK, lönduðu bæði góðum afla í vikunni. Páll Jónsson landaði 125 tonnum í Grindavík á mánudaginn og Sighvatur landaði 114 tonnum á Djúpavogi í gær. Heimasíðan heyrði hljóðið í skipstjórunum og spurðist fyrir um gang veiðanna. Benedikt Jónsson, skipstjóri á Páli Jónssyni, sagði að um mjög góðan túr hefði verið að ræða og menn væru sáttir við veiðina. “Við forum beint út á Þórsbankanno g fengum þar ein 90 tonn í þremur lögnum. Það var langmest þorskur. Síðan byrjaði að bræla og þá var keyrt upp í Hornafjarðardýpið og ein og half lögn tekin þar. Það fæst alltaf boltafiskur á Þórsbankanum og í Hornafjarðardýpinu fæst líka góður fiskur. Þetta var semsagt góður og verðmætur túr,” sagði Benedikt.

Óli Björn Björgvinsson, skipstjóri á Sighvati, var einnig ánægður með veiðiferðina. “Við vorum ofarlega í Hornafjarðardýpinu og sunnan við Hornasfjörð allan túrinn. Aflinn fékkst í tæpum sex lögnum. Við vorum að reyna að blanda aflann og það gekk sæmilega. Mest fékkst af þorski en síðan var þetta ýsa, langa, keila og ufsi. Fiskurinn sem þarna veiddist var fallegur, meðalvigt á þorskinum var 5 – 6 kg. og það er ekki hægt að vera annað en ánægður með það. Við gerum ráð fyrir að landa næst í heimahöfn í Grindavík,” sagði Óli Björn.

Bæði skipin héldu til veiða á ný fljótlega eftir að löndun lauk.