Páll Jónsson GK siglir inn Norðfjörð sl. föstudag. Ljósm. Guðlaugur Björn Birgisson

Línuskip Vísis, Páll Jónsson GK og Sighvatur GK, hafa að undanförnu veitt austur af landinu. Páll Jónsson landaði á föstudag og aftur á mánudag en Sighvatur landaði í gær. Heimasíðan ræddi við skipstjórana og fræddist um veiðina að undanförnu.

Jónas Ingi Sigutrðsson á Páli Jónssyni var mjög sáttur við aflabrögðin. ”Við byrjuðum á að taka þrjár lagnir á Héraðsflóanum og aflinn var 82 tonn. Að því loknu var haldið til löndunar í Neskaupstað vegna brælu. Að löndun lokinni var haldið í Héraðsflóann á ný og þá fengust 46 tonn í tveimur lögnum. Síðan var haldið til löndunar á Djúpavogi. Samtals er þarna um að ræða 128 tonn í fimm lögnum og það er fín veiði. Uppistaðan í veiðinni er þorskur. Við létum úr höfn á ný fljótlega eftir að löndun lauk á föstudaginn,” sagði Jónas Ingi.

Aðalsteinn Rúnar Friðþjófsson á Sighvati sagði að afli skipsins hefði verið 105 tonn, langmest þorskur. ”Við lönduðum á Djúpavogi og það var haldið til veiða á ný strax að löndun lokinni. Aflann fengum við í fimm og hálfri lögn á Héraðsflóanum og á Bjarnareyjarbleyðunni. Þarna heldur síldin sig og það virðist vera nóg af henni. Fiskurinn sem þarna fæst er bæði stór og fallegur, meðalþyngdin er um fjögur kíló. Þetta var fínasti túr og allt gekk vel. Veðrið var fínt tvo fyrstu dagana en síðan kom kaldadrulla. Menn geta ekki verið ósáttir við veðrið því það er víst komið haust,” sagði Aðalsteinn Rúnar.