
Línuskip Vísis, Páll Jónsson GK og Sighvatur GK, hafa bæði landað góðum afla í vikunni. Páll Jónsson landaði 120 tonnum í Grindavík á mánudag og Sighvatur landaði tæpum 100 tonnum á Skagaströnd í morgun. Heimasíðan ræddi við skipstjórana og spurði þá út í gang veiðanna.
Jónas Ingi Sigurðsson, skipstjóri á Páli Jónssyni, var ánægður með túrinn. ”Við vorum suðaustur af Papey allan tímann í þokkalegasta veðri. Lagnirnar voru fimm og aflinn var fínn. Um 65% aflans var þorskur og síðan var þetta mest ýsa. Þorskurinn sem fékkst þarna var mjög góður þannig að við höfum ekki yfir neinu að kvarta,” sagði Jónas Ingi.
Aðalsteinn Rúnar Friðþjófsson, skipstjóri á Sighvati, var einnig sáttur við veiðiferðina. ”Að þessu sinni vorum við að veiðum fyrir norðan landið og það gekk þokkalega. Aflinn var mest þorskur en síðan var í honum ýsa, keila og aldamótakarfi. Við vorum að leita að ýsu eins og oft áður en það mætti ganga betur. Við byrjuðum túrinn sunnan við Drangál í utanverðum Húnaflóanum en við vorum ekki sáttir við stærðina á fiskinum sem þar fékkst. Það var því einungis ein lögn á Drangálnum. Við færðum okkur innar á Reykjafjarðartunguna og þar var lagt tvisvar. Tvær síðustu lagnirnar voru í Hryllingsbúðinni og þar fékkst stór og fallegur fiskur. Það var gott veður til að byrja með í túrnum en síðan kom kaldafýla,” sagði Aðalsteinn Rúnar.
Bæði skip héldu til veiða á ný fljótlega að löndun lokinni.