Barði NK kom til Neskaupstaðar í morgun með 1.200 tonn af loðnu. Vinnsla hófst þegar í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar. Heimasíðan sló á þráðinn til Þorkels Péturssonar skipstjóra og forvitnaðist um veiðiferðina. “Þessi túr gekk mjög vel. Við forum fremst í gönguna og fengum aflann í þremur köstum sunnan við Malarrif á Snæfellsnesi. Það fengust frá 285 – 580 tonn í kasti. Þetta gekk allt með miklum ágætum en veðrið var hins vegar hundleiðinlegt. Þetta er fínasta loðna og hrognafyllingin er 19 – 20%. Hér um borð eru allir glaðir og brosandi en sorgmæddir um leið. Það er gleðiefni að fá tækifæri til að eiga við loðnuna en grátlegt að þetta skuli vera eini túr þessarar vertíðar ef vertíð skyldi kalla. Það er hræðilegt að kvóti Síldarvinnslunnar skuli vera uppurinn hér og nú,” sagði Þorkell.

Geir Sigurpáll Hlöðversson, rekstrarstjóri fiskiðjuvers Síldarvinnslunnar, sagði að allir væru himinlifandi að vera komnir með loðnulykt í húsið. “Hér brosa allir hringinn. Loðnan lítur mjög vel út. Hrygnan er heilfryst á Japansmarkað og hængurinn á Austur – Evrópu. Hingað eru komnir fulltrúar kaupenda, meðal annars Japanir og stemmningin er bara akkúrat eins og hún á að vera,” sagði Geir Sigurpáll.
