
Nú stendur makrílvertíð yfir og það er staðreynd að makríllinn er orðinn mikilvægur og rótgróinn þáttur í starfsemi fyrirtækja sem leggja áherslu á veiðar og vinnslu uppsjávartegunda. Árið 2006 fór makríll að veiðast sem meðafli í síldveiðum í flotvörpu austur af landinu og veiddust þá um 4.000 tonn. Strax þá hófu menn að velta fyrir sér þeim möguleikum sem tilkoma makríls í íslenska lögsögu skapaði og árið eftir hófust beinar makrílveiðar. Veiðarnar fóru vel af stað og bárust þá 37.000 tonn á land. Fyrir lá að allmikill makríll hafði gengið inn í íslenska lögsögu og að sjálfsögðu var vilji til að nýta þessa nýju auðlind eins og frekast var kostur. Á árunum 2008 – 2011 jókst makrílafli íslenskra skipa en á árinu 2009 var fyrst gefið út kvótaþak fyrir makrílveiðarnar og árið eftir var kvóta úthlutað á hvert skip. Á árinu 2011 var aflinn 159.000 tonn og við blasti sú staðreynd að makríll var orðinn ein mikilvægasta fisktegundin sem veidd var við landið. Á árinu 2012 var makrílaflinn 149.000 tonn og árið 2013 ákváðu íslensk stjórnvöld makrílkvóta sem nam 120.000 tonnum.
Helstu veiðisvæði makrílflotans á Íslandsmiðum voru framan af austur- og suðausturmið en síðan veiddist vel á vesturmiðum árið 2010 og næstu árin fór makrílveiðin fram á öllum þessum miðum.
Helsta ástæðan fyrir því að makríll gekk inn í íslenska lögsögu var álitin vera hlýnun sjávar en eins var rætt um að fiskurinn leitaði á nýjar slóðir vegna minnkandi fæðuframboðs á þeim slóðum sem hann hafði áður haldið sig alfarið á. Þá er ekki ólíklegt að makrílstofninn hafi stækkað og því hafi útbreiðsla hans aukist. Þegar makríls varð vart árið 2006 hafði fiskurinn ekki verið áberandi á Íslandsmiðum um áratuga skeið. Heimildir benda hins vegar til að á hlýindaskeiðum í sjónum á fyrri tíð hafi makríll gert sig heimakominn við Íslandsstrendur. Á síðasta tug 19. aldar varð vart við makríl út af Vestur- og Norðurlandi og sumarið 1904 virðist hafa verið allmikið um makríl hér við land. Varð hans þá vart frá Hrútafirði og austur að Glettinganesi. Eins bárust fréttir af makríl bæði frá Austfjörðum og Vesturlandi sumrin 1906 og 1908. Upp úr 1926 hóf að hlýna verulega í sjónum og þá var makríll nánast árlegur gestur við landið. Árið 1928 veiddist makríll fyrir norðan land og árið 1930 var mikið um makríl út af Austfjörðum. Talsvert var af makríl við Suðurnes árið 1934 og árið 1938 varð vart við hann í Miðnessjó og í Skerjafirði. Á lýðveldisárinu 1944 varð vart við makríl bæði út af Vestfjörðum og Norðurlandi.
Á fyrri árum var makríll ekki veiddur með skipulegum hætti heldur fékkst hann sem meðafli í síldarnet og nætur. Þegar hlýindaskeiðinu sem hófst árið 1926 lauk um 1960 hættu makrílfréttir að berast. Hitinn í hafinu hélst tiltölulega lágur fram undir árið 2000 ef stutt hlýindaskeið um 1970 er undanskilið en þá veiddu íslensk skip makríl í litlum mæli. Þess ber að geta að fyrir kom að íslenskir síldarbátar veiddu makríl í Norðursjónum á árunum 1967 – 1976 og var þá aflanum landað hér á landi í nokkur skipti en það er önnur saga. Einnig skal nefnt að togarinn Sjóli frá Hafnarfirði veiddi makríl í lögsögunni sumarið 1998 og var aflanum landað í Neskaupstað. Gerðar voru tilraunir til að frysta afla togarans og var dreginn af þeim ýmis lærdómur.
Eftir að makrílveiðarnar hófust árið 2006 var makríllinn fyrst og fremst nýttur til framleiðslu á mjöli og lýsi en eftir að hvert skip fékk úthlutað kvóta jókst áhersla á manneldisvinnslu. Eðllega vildu allir gera sem mest verðmæti úr þeim takmarkaða afla sem hvert skip hafði heimild til að veiða. Þá var farið að hyggja af alvöru að fjárfestingum í búnaði til manneldisvinnslu og eins til að tryggja að skipin kæmu með sem bestan afla að landi. Þá var nauðsynlegt að leggja miklu vinnu í markaðsmálin. Það þurfti að koma framleiðslunni í verð og fá sem mest fyrir vöruna. Vinna að markaðsmálunum hófst fyrir alvöru árið 2009 og beindust augu manna einkum að mörkuðum í Austur-Evrópu, Asíu og Afríku. Góður árangur náðist í markaðsstarfinu og fór manneldisvinnslan vaxandi. Hin síðari ár hefur öll áhersla verið lögð á að frysta makríl til manneldis og hafa fyrirtækin náð góðum tökum á framleiðslunni.

Fyrir uppsjávarfyrirtæki eins og Síldarvinnsluna hefur makrílveiðin og vinnsla á makríl skipt miklu máli. Nýtingin á fiskiðjuveri fyrirtækisins hefur aukist með tilkomu makrílsins og allar fjáfestingar sem ráðist hefur verið í vegna makrílsins nýtast einnig við vinnslu á síld og loðnu. Með tilkomu makrílsins hefur fiskiðjuverið verið starfrækt með fullum afköstum yfir sumartímann en þá er hvorki verið að veiða og vinna síld eða loðnu. Eins og flestum er kunnugt eru
umtalsverðar sveiflur í veiðum uppsjávarstofna. Uppsjávarfyrirtækin byggðu afkomu sína á fjórum tegundum; loðnu, kolmunna, norsk-íslenskri síld og íslenskri sumargotssíld. Það skipti þau afar miklu máli að fá fimmtu tegundina til að byggja á og það er staðreynd að makríllinn hefur oft verið sú tegund sem skilar mestum verðmætum.