Anna Danuta Sochon að pakka makríl í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar. Ljósm. Geir Sigurpáll Hlöðversson

Fiskiðuver Síldarvinnslunnar í Neskaupstað hefur tekið á móti rúmlega 4.000 tonnum af makríl frá því að vertíðin hófst í júnímánuði. Í fyrstu var makríllinn veiddur í Smugunni en síðustu dagana hefur veiðin farið fram í íslenskri lögsögu. Börkur NK kom með fyrsta makrílinn úr íslensku lögsögunni til löndunar þann 1. júlí sl. og í gær kom Barði NK með tæplega 700 tonn sem nú er verið að vinna. Heimasíðan ræddi við Geir Sigurpál Hlöðversson rekstrarstjóra fiskiðjuversins og spurði fyrst hvernig vinnslan gengi. “Vinnslan gengur vel og hún hefur gengið vel frá upphafi vertíðar. Makríllinn sem nú berst að landi er mun skárra hráefni en Smugumakríllinn sem við fengum í upphafi vertíðar. Makríllinn úr íslensku lögsögunni er stærri og ekki eins feitur og Smugumakríllinn. Meðalþyngd makrílsins úr Smugunni var um 450 grömm en meðalþyngd makrílsins úr íslensku lögsögunni er 560 grömm. Þá ber að nefna að inn á milli höfum við verið að fá mjög stóra fiska nú síðustu dagana. Við brugðum einum stórum, sem kom úr afla Barkar, á vigtina og hann reyndist vera 1.140 grömm. Það verður vart annað sagt en að þar hafi verið á ferðinni stórglæsilegt eintak. Makríllinn er unninn með þrennum hætti – hann er heilfrystur, hausaður og flakaður. Mest fer í heilfrystinguna. Það verður vart annað sagt en að vertíðin hafi gengið vel til þessa og vonandi verður það svo áfram,” sagði Geir Sigurpáll.

Makríllinn sem fæst í íslensku lögsögunni er stærri en sá sem fæst í Smugunni. Makríllinn á myndinni 1140 gr. Ljósm. Geir Sigurpáll Hlöðversson