
Síldarvinnsluskipin, Barði NK, Beitir NK og Börkur NK, munu öll halda til makrílveiða frá Neskaupstað í dag. Leitað hefur verið að makríl síðustu dagana suðaustur af landinu en þar hefur lítið fundist og eru skipin sem þar leituðu komin út í Smugu. Grænlensku skipin Polar Amaroq og Polar Ammassak hafa verið að partrolla í Smugunni. Polar Amaroq frystir aflann um borð og eru frystilestar skipsins orðnar fullar og nú fer aflinn í kælitanka Polar Ammassak. Eins og undanfarin ár verða Síldarvinnsluskipin í veiðisamstarfi með Samherjaskipunum Vilhelm Þorsteinssyni EA og Margréti EA. Það er mjög góð reynsla af veiðissamstarfinu en í því felst að afli allra skipanna fer hverju sinni um borð í eitt þeirra sem flytur hann síðan til lands. Þetta fyrirkomulag er skynsamlegt í alla staði, einkum þegar veiði er ekki mikil og langt að sækja.
Heimasíðan heyrði hljóðið í Hjörvari Hjálmarssyni skipstjóra á Berki og spurði hann hvernig honum litist á komandi vertíð. ” Ég held að menn séu hóflega bjartsýnir. Útlitið er svipað og í fyrra og ég geri ráð fyrir að stefnan verði strax tekin á Smuguna. Við vonumst eftir að þetta þróist með svipuðum hætti og á síðasta ári en þá var veiðin mest í Smugunni framan af en síðan fékkst drjúgur afli innan lögsögunnar,” sagði Hjörvar.
Í fyrra var fyrsta makrílnum landað til vinnslu í Neskaupstað þann 2. Júlí. Þá kom Beitir NK með tæplega 500 tonn sem fengust innan lögsögunnar. Vilhelm Þorsteinsson EA kom síðan strax í kjölfarið með 850 tonn úr Smugunni.
Geir Sigurpáll Hlöðversson, rekstrarstjóri fiskiðjuvers Síldarvinnslunnar, segir það tilhlökkunarefni að makrílvertíð sé að hefjast. ”Hjá okkur er allt að verða klárt. Eftir helgina fyllist fiskiðjuverið af fólki og það verður líf í tuskunum. Á vertíðinni verður unnið á þremur vöktum og eru 25 manns á hverri vakt. Þannig eru framleiðslustarfsmennirnir 75 að tölu en alls starfa um 100 manns í fiskiðjuverinu þegar framleitt er. Það verður gott að fá fisk í húsið og við vonumst til að fá fyrsta farminn til vinnslu seint í næstu viku. Svo vona menn að vertíðin verði heldur lengri en makrílvertíðin var í fyrra. Það er alltaf ákveðin spenna sem fylgir hverri vertíð,” sagði Geir Sigurpáll.