Í gær efndi Síldarvinnslan til fundar í þeim tilgangi að undirbúa makrílvertíðina sem framundan er. Fyrirtækið hefur haldið slíka fundi undanfarin ár í þeim tilgangi að stilla saman strengi allra þeirra sem sinna verkefnum sem tengjast veiðum, vinnslu og sölu á makríl. Á slíkum fundum hefur einnig verið fjallað um ýmis önnur málefni sem þörf er á að ræða. Þennan fund sóttu um fimmtíu manns.
Fundurinn í gær hófst með því að Húnbogi Sólon Gunnþórsson fjallaði um kvóta og áætlanir á komandi vertíð. Í hans verkahring var einnig að gera grein fyrir fyrirhuguðu veiðisamstarfi skipa á vertíðinni. Í kjölfar Húnboga kom Sigurpáll Geir Hlöðversson og sagði frá framleiðslu síðustu ára auk þess að geta um gæðamál.
Jóhannes Már Jóhannesson og Unnur Inga Kristinsdóttir fjölluðu um markaðsútlit hvað makríl og síld varðar og Hlynur Veigarsson sagði frá útliti um sölu á mjöli og lýsi.
Að lokinni umfjöllun um markaðsmálin fór Páll Freysteinsson öryggisstjóri yfir reglur um öryggi um borð í skipunum. Þegar Páll hafði lokið máli sínu sagði Sindri Sigurðsson frá nýliðinni kolmunnavertíð hvað varðar gæðamál.
Í lok fundarins tók Gunnþór B. Ingvason forstjóri til máls og fjallaði almennt um komandi makrílvertíð og þær áætlanir sem tengjast henni.
Gunnþór B. Ingvason var spurður að því hvort fundur eins og þessi væri mikilvægur. “Í uppsjávarveiðum er unnið í vertíðum og það liggur mikið við hverju sinni. Því er mikilvægt að stilla saman strengina. Á fundinum voru sjómenn, stjórnendur í landvinnslum ásamt sölu og markaðsfólki. Til að vel takist er mikilvægt að öll virðiskeðjan vinni í sömu átt. Við erum með fundi eins og þennan árlega og þá er meðal annars farið yfir aflaheimildir, ráðstöfun aflans og sölu á afurðum. Það eru margar breytur sem hafa áhrif á það hvernig til tekst eins og til dæmis veðurfar, göngumynstur fisksins, veiðanleiki og vegalengdir. Þegar kemur að framleiðslunni þá þarf að huga að því hvaða vinnsluleið hámarkar verðmæti út frá ástandi hráefnisins hverju sinni. Svo þarf að koma vörunni á erlenda markaði sem eru mismunandi eftir því hvað er framleitt. Við tókum upp veiðisamstarf með skipum Samherja hf. árið 2020 og hefur það gefist afar vel. Þá vinna skipin saman á miðunum sem getur skipt sköpum þegar veiðin er tregari, en þá er aflanum safnað í eitt skip svo aflinn stoppi sem styst á miðunum og komi sem ferskastur til vinnslu í landi. Auk þess sparar veiðisamstarfið mikla orku því þá er ekki verið að sigla í land með mikla ónýtta burðargetu. Verðmætasköpunin byggir á þéttu samstarfi margra aðila og til að vel takist þarf öll liðsheildin að vinna að sömu markmiðum hverju sinni. Svona fundir byggja undir slíkt samstarf. Við viljum sem liðsheild vera klár að mæta þeim áskorunum sem birtast okkur á komandi vertíð,” segir Gunnþór.