Beitir NK er væntanlegur til Neskaupstaðar fyrir hádegi í dag með 474 tonn af makríl sem fékkst í íslenskri lögsögu austur af landinu. Vinnsla mun hefjast í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar strax þegar skipið kemur. Karl Rúnar Róbertsson gæðastjóri segir að allt sé tilbúið í verinu. “Hér er allt yfirfarið, tandurhreint og fínt og mannskapurinn er klár í slaginn. Samkvæmt fréttum frá Beiti þá er um að ræða stóran makríl, yfir 500 grömm og átan í honum er um 3 þannig að þetta lítur vel út,” segir Karl Rúnar.
Síðan er von á Vilhelm Þorsteinssyni EA úr Smugunni í fyrramálið með 851 tonn af makríl, en þar er um að ræða afla sem Vilhelm og Börkur NK hafa fengið þar að undanförnu.
Eins og greint hefur verið frá munu Síldarvinnsluskipin Beitir NK, Börkur NK og Barði NK hafa með sér veiðisamstarf við makrílveiðarnar ásamt Samherjaskipunum Vilhelm Þorsteinssyni EA og Margréti EA. Beitir, Börkur og Vilhelm hafa verið að veiðum síðustu daga en Barði og Margrét héldu til veiða í gær.