Vestmannaeyjaskipin Bergur VE og Vestmannaey VE lönduðu í Neskaupstað á sunnudag og í gær og voru bæði með fullfermi. Bergur kom á sunnudaginn og segir Jón Valgeirsson skipstjóri að túrinn hafi verið erfiður vegna veðurs. “Við vorum á Tangaflakinu allan tímann í skítabrælu. Veðrið var ansi þreytandi því allt verður helmingi erfiðara þegar það lætur svona. Aflinn var að mestu þorskur en það var aðeins ýsa með,” segir Jón.
Bergur hélt strax út að löndun lokinni og hefur verið að fá ýsu á Glettinganesflakinu.
Vestmannaey kom síðan til löndunar í gær og tók Birgir Þór Sverrisson skipstjóri undir með Jóni þegar rætt var um veðrið. “Við fórum út á fimmtudagskvöld og það var sannkallaður leiðindaskælingur alveg fram á sunnudag. Við hófum túrinn á Gerpisflaki, vorum síðan Utanfótar og á Tangaflaki en enduðum á Héraðsflóanum í þokkalegustu veiði. Aflinn er nánast hreinn þorskur. Við gerum ráð fyrir að fara út fljótlega eftir löndun og þá er stefnan að reyna við ýsu,” segir Birgir Þór.
Gert er ráð fyrir að skipin landi á ný í Neskaupstað seinna í vikunni.