Gullver NS. Ljósm. Ómar Bogason

Ísfisktogarinn Gullver NS kom til heimahafnar á Seyðisfirði í gær og landaði þar. Aflinn var 80 tonn og var uppistaða hans karfi og ýsa. Heimasíðan ræddi við Hjálmar Ólaf Bjarnason skipstjóra og spurði hvernig túrinn hefði gengið fyrir sig. “Túrinn tók fimm daga en við vorum einungis um þrjá daga að veiðum. Við byrjuðum á tólf tíma siglingu á Melsekk þar sem reynt var við karfa. Aflinn var ekki nægilega mikill þannig að við færðum okkur á bleiðu sem ber nafnið Urð og grjót. Þaðan var síðan haldið á Litla banka og loks á Pínulitla banka þar sem karfaveiðin gekk mun betur. Þegar karfaskammtinum var náð var siglt í sólarhring. Prufað var á Mýragrunni en síðan haldið á Papagrunn þar sem fékkst ýsa, dálítið þorskblönduð. Segja má að veðrið í túrnum hafi verið hið þokkalegasta og í lokin var það alveg lygilega gott. Nú er helgarfrí framundan hjá áhöfninni og það verður ekki haldið til veiða á ný fyrr en á mánudag,” segir Hjálmar Ólafur.