Háhyrningar fylgja pokanum þegar hann er dreginn að skipinu.
Ljósm. Ingvar Ísfeld Kristinsson

Beitir NK kom til Neskaupstaðar um hádegisbil í gær með 700 tonn af síld. Vinnsla á síldinni hófst strax í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar. Heimasíðan ræddi stuttlega við Tómas Kárason skipstjóra og spurði hvernig veiðin hefði gengið. “Þetta gekk mun verr en að undanförnu. Við vorum í Héraðsflóanum og tókum fjögur hol. Aflinn fékkst að mestu í tveimur þeirra. Það voru 350 tonn í öðru og 240 í hinu. Það var hins vegar lítið í hinum tveimur holunum, 70 tonn í öðru og einungis 40 í hinu. Undir lok túrsins hjá okkur voru hins vegar skip að fá góðan afla norður í Bakkaflóadýpi þannig að síldin virðist hafa fært sig til. Já, síldin stríðir okkur stundum og það er ekki annað að gera en að sætta sig við það. Þetta er sama fína síldin sem veiðist og það er dálítið af íslenskri síld í bland við þá norsk – íslensku. Við gerum ráð fyrir að tveir túrar séu eftir hjá okkur á þessari síldarvertíð en í kjölfarið verður hugað að veiðum á íslenskri sumargotssíld fyrir vestan land. Athygli vekur að það er rosalega mikið af hval á síldarmiðunum núna og þetta er hvalur af öllum stærðum og gerðum. Þegar við drögum pokann að skipinu fylgir alltaf fullt af háhyrningum og þeir éta hvern fisk sem dettur úr belgnum. Það gengur mikið á þegar þetta á sér stað,” sagði Tómas.