
Línuskip Vísis, Páll Jónsson GK og Sighvatur GK, hafa bæði að venju landað í heimahöfn í Grindavík nú í vikunni. Páll Jónsson landaði á mánudag og Sighvatur í dag. Heimasíðan sló á þráðinn til skipstjóranna og spurði frétta. Jónas Ingi Sigurðsson, skipstjóri á Páli Jónssyni, lét ekki illa af sér. “Við lönduðum tæpum 100 tonnum sem fengust í fimm lögnum. Við vorum allan tímann í Háfadýpinu og erum þokkalega sáttir við aflabrögðin. Nú minnkar þorskveiðin hjá okkur og vorskrapið er byrjað enda var megnið af aflanum í túrnum langa og keila en þorskur einungis um 20%. Við vorum heppnir með veður, það var kaldi í eina tvo daga en annars blíða. Það gerðist til tilbreyttingar hjá okkur að þyrla frá landhelgisgæslunni kom og við æfðum okkur í að taka á móti sigmanni og lækni. Svona æfingar eru mikilvægar og það er virkilega vel að þeim staðið,” sagði Jónas Ingi.
Aðalsteinn Rúnar Friðþjófsson, skipstjóri á Sighvati, bar sig nokkuð vel þegar við hann var rætt. ”Við vorum með um 70 tonn og veiðin hefði mátt vera dálítið meiri. Aflinn var mest langa og síðan bland af ýmsum tegundum. Í túrnum var byrjað á Landsuðurhrauni við Eyjar en síðan lá leiðin í Háfadýpi, á Síðugrunn og í Meðallandsbugtina. Staðreyndin er sú að menn verða alltaf jafn hissa þegar veiðin minnkar á vorin en það komu allir heilir heim úr skrapinu og það er fyrir öllu,” sagði Aðalsteinn Rúnar.