Ágætu hluthafar, starfsmenn og samstarfsaðilar
Það er erfitt að hlusta á umræðu þeirra sem fara með lagasetningarvald um meintan “ofurhagnað” og arðsemi sjávarútvegs umfram aðrar atvinnugreinar. Allt sett fram til réttlætingar á að greinin verði svipt fyrirsjáanleika með ógagnsæjum skattlagningarhugmyndum.
Það var sérstaklega miður að hlusta á ræðu nýs þingsmanns úr kjördæminu hvar hún talaði fyrir veikingu grunnstoða sinnar heimabyggðar. Ég ætla að leyfa mér að vona að þar hafi hún fremur fylgt slæmum ráðleggingum en eigin sannfæringu. Ég bið hana eins og aðra að gæta þess að fara með rétt mál og kynna sér staðreyndir. Sérstaklega þegar um er að ræða jafn afdrifarík mál og það sem ræða hennar fjallaði um. Eins og kunnugt er sagði fjármálaráðherra um daginn, “rétt skal vera rétt” og ætla ég því að fjalla aðeins um meintan “ofurhagnað” og arðsemi.
Kveikjan að þessum pistli mínum eru orð þingmannsins frá Eskifirði í pontu á Alþingi á dögunum en þar sagði hún m.a.:
„Fyrir liggur að arðsemi í sjávarútvegi er langt umfram það sem gengur og gerist í íslensku viðskiptalífi og hún verður áfram tvisvar sinnum meiri eftir að veiðigjöldin verða leiðrétt.“
Þarna endurómar sá undirbúni tónn sem herdeild ráðamanna hefur gefið . Planið er sennilega að segja þetta nógu oft og halda að sannleikurinn verði til með síendurteknum rangtúlkunum.
Hér á eftir ætla ég að reyna að koma staðreyndum á framfæri og freista þess að reyna að leiðrétta þau rangindi sem borin eru á torg þessa dagana um sjávarútveg til að breiða yfir áhrif ofurskattlagningahugmynda.
Ofurhagnaður
Ég rakst á grein eftir Gústaf Steingrímsson á vefmiðlinum Vísi frá 29. apríl 2024. Þar er spurt hvað ofurhagnaður sé. Ef menn velta því fyrir sér hvort fyrirtæki sem skilar sex milljarða hagnaði af 150 milljarða eignum sé með ofurhagnað þá eru flestir sammála um að svo sé ekki. Enda er þar einungis um að ræða 4% ávöxtun af eignum sem er mun minna en hægt er að fá af öruggum áhættulausum bankainnstæðum. Aðra sögu er að segja ef við skoðum fyrirtæki með eignir upp á sex milljarða sem skilar eigendum 1,5 milljarð hagnaði, þ.e.a.s. fyrirtækið fær 25% ávöxtun af eignum. Það er vel umfram það sem hægt er að fá með öruggum innstæðum í banka. Þarna getur einfaldlega munurinn legið í mjög mismunandi fjárbindingu í rekstri.
Í þessari umræðu þarf að taka tillit til áhættu, sveiflna og fjárbindingu.
Sjávarútvegi fylgir mikil áhætta. Loðnubrestur er þekktur áhættuþáttur en einnig ríkir mikil óvissa um veiði á makríl.
Þannig reiknast mér til að uppsjávariðnaðurinn á Íslandi sé um 510 millljarðar að nývirði. Þar starfa um 1000 manns. Sveiflur í aflaheimildum eru miklar og nýting á fjárfestingum eru ekki góðar.
Í umræðunni er mikið talað um verga hlutdeild fjármagns eða (EBITDA) hagnað og oft er talað um þessa kennitölu sem “ofurgróða”. Þessi kennitala mælir afkomu félaga fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta. Hún segir því ekki mikið um heildina, sérstaklega ekki í skuldsettum félögum með mikla fjárbindingu í búnaði.
Stærstu fjárfestingar fyrirtækja í Fjarðabyggð sl. ár hafa snúist um aukna verðmætasköpun úr makríl, síld og loðnu. Á árunum 2023 og 2024 var hundruðum milljóna varið í fjárfestingu í búnaði til vinnslu á loðnuhrognum. Enn sem komið er hefur þessi mikla fjárfesting ekki skilað arðsemi en mun vonandi fá að skapa atvinnu og verðmætan gjaldeyri í framtíðinni.
Réttur mælikvarði á afkomu fyrirtækja
Ræða nýja þingmannsins endurómaði möntru þeirra sem lengi hafa haft horn í síðu sjávarútvegs, að arðsemi sjávarútvegs sé langt umfram það sem gengur og gerist í viðskiptalífinu.
Þegar skoðuð eru nokkur félög í kauphöllinni, sbr, myndina hér að neðan, sést þegar meðaltal sl. 10 ára er skoðað, að staðhæfingar um ávöxtun langt umfram aðra stenst ekki.
Þarna er arðsemi frá 12% uppí 20%. Sjávarútvegsfélögin liggja í 13,6-15% sem er ekki langt umfram aðra og langt frá tvöfalt meiri arðsemi eftir hækkun veiðigjalda sem ekki er komin inn á myndina.

Það er fróðlegt að bera saman sveiflur í arðsemi félaga og hér að neðan er þróun milli ára frá 2014 skoðuð fyrir sjávarútvegsfyrirtækin þrjú sem eru á markaði, svo og þau tvö sem eru með mesta arðsemi og tvö lægstu.
Þegar þessi sjö fyrirtæki eru borin saman sést að heilt yfir eru miklar sveiflur, en séu sjávarútvegsfélögin þrjú skoðuð sést að frá 2021 hefur arðsemi þeirra legið niður frá þeim tíma. Það skal tekið fram að þessar tölur miðast við bókfært eigið fé en ekki markaðsvirði félaganna, þá væru tölurnar enn svartari.

Niðurlag
Auðvelt er að grípa til gífuryrða til að réttlæta aukna skattheimtu á sjávarútveginn þegar ekki er hugsað til þess hvort fótur sé fyrir þeim. Til að fegra aðgerðina enn fremur er talað um ”leiðréttingu”. Orðið leiðrétting þýðir að einhverju er breytt sem ekki var rétt. Veiðigjöldin hafa verið rétt og samkvæmt lögum. Nú á hins vegar að hækka skattana og sú hækkun er dulbúin.
Það er ekki leiðrétting, það er einfaldlega breyting. Þarna er á ófyrirleitinn hátt verið að höfða til réttlætiskenndar fólks og reyna að búa til ”vondan aðila” sem hafi ”sloppið” undan einhverju sem nú er verið að ”leiðrétta”.
Þessi aðgerð er óvissuferð sem við sjáum ekki hvar endar. Þetta er meira en tvöföldun að mínu viti en engar greinargerðir liggja fyrir eða rök.
Þingmaðurinn fullyrti einnig í ræðu sinni að arðsemi sjávarútvegsfyrirtækjanna verði áfram tvisvar sinnum meiri eftir þessa ”leiðréttingu”. Á árinu 2024 er arðsemin einfaldlega langt undir samanburðarfélögum sé myndin hér að ofan skoðuð, þannig að ég velti fyrir mér hvað á þingmaðurinn við með orðunum „tvisvar sinnum meiri“ og tvisvar sinnum meiri en hvað?
Kíkjum fyrst á hvernig þessi ”leiðrétting” er áður en við skoðum afleiðingarnar.
Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að notuð séu norsk verð. Þarna er verið að bera saman epli og appelsínur eins og stjórnandi hjá Norges Sildesalgslag sagði við mig í símtali á dögunum. Maðurinn, sem sér um sölu á uppsjávarafla í Noregi, sagði engan veginn raunhæft að bera saman uppsjávarafla íslenskra skipa og afla norsku skipanna. Þó svo að um sömu tegund sé að ræða er einfaldlega ekki um sömu afurð að ræða. Uppsjávarfiskur er veiðanlegur í íslenskri lögsögu á öðrum tíma árs en í þeirri norsku og er einnig veiddur með annars konar veiðarfærum. Niðurstaðan er að gæðalega séð er ekki um sömu vöru að ræða.
En hvaða áhrif hefur tvöföldun veiðigjalda á arðsemi? Það þýðir að arðsemi eiginfjár lækkar um 16,8% miðað við árið 2024.
Þess ber að geta að þar er heldur ekki tekið tillit til þeirrar 50% hækkunar sem þegar er komin milli áranna 2024 og 2025. Veiðigjöld Síldarvinnslunnar 2024 námu 1.277 milljónum en eru áætluð 1.790 milljónir á árinu 2025. Þetta er um 50% hækkun fyrir núverandi hækkun sem boðuð er í fyrirliggjandi frumvarpi. Er þá heldur ekki tekið tillit til rúmlega 300 milljóna króna hækkunar á kolefnisgjöldum sem komin er til framkvæmda.

Hvenær getur 5,7% arðsemi eigin fjár talist tvisvar sinnum meiri en gengur og gerist í atvinnulífinu? Það er næstum því tvisvar sinnum minna en arðsemi þess félags sem er með minnstu arðsemi í Kauphöllinni undanfarinn áratug og því miður lægri en á öruggu bankabókinni!
Hækkun veiðigjalda hefur ekki aðeins áhrif á sjávarútvegsfyrirtækin sjálf eða ”sægreifana” sem stöðugt er talað um. Hún hefur áhrif á allt samfélagið og sérstaklega á nærsamfélagið. Það er áhugavert að skoða þetta í ljósi uppgjörs Síldarvinnslunnar í Neskaupstað sem keypti þjónustu af fyrirtækjum í Fjarðabyggð fyrir meira en 2 milljarða í fyrra.
Nú er komið gott. Segjum bara satt og rétt frá hvert markmiðið er og hverjar afleiðingarnar verða, höllum ekki réttu máli til að breiða yfir staðreyndir. Ef hækka á skatta á greinina hlýtur að vera sjálfsögð krafa að það sé gert með gagnsæum hætti, en ekki með óvissuferð til annarra landa.

Enginn er eyland og stór fyrirtæki eru það svo sannarlega ekki. Þau bregðast við auknum álögum með hagræðingu. Það hefur áhrif á allt vistkerfi þeirra, innkaup, starfsmannafjölda og umsvif yfir höfuð. Að sama skapi knýr þetta minni félög til að sameinast til að reyna að búa til hagræðingu. Er það kannski stefna nýrrar ríkisstjórnar? Að auka samþjöppun og fækka vinnslum ? Ef svo er þá er bara að segja það.
Við þingmenn kjördæmisins vil ég að lokum segja: Ég vona að þið kíkið í heimsókn og kynnið ykkur starfsemi sjávarútvegsfyrirtækja sem starfa í kjördæminu. Einnig er nauðsynlegt að tala við þau fjölmörgu fyrirtæki sem þjónusta þessi sjávarútvegsfyrirtæki. Það er fjarri því sjálfgefið að í Fjarðabyggð séu þrjú öflug fyrirtæki í uppsjávariðnaði með allan þann blómlega iðnað og mannlíf sem þrífst í okkar góða samfélagi.
Gunnþór Ingvason
Forstjóri