Barði NK að veiðum. Ljósm. Helgi Freyr Ólason

Barði NK kom til heimahafnar í Neskaupstað með fullfermi af kolmunna rétt fyrir hádegi í gær. Heimasíðan ræddi við Þorkel Pétursson skipstjóra og spurði fyrst um gang veiðanna. “Við vorum að veiðum austan og norðaustan við Færeyjar skammt frá skosku línunni og þarna var fínasta veiði. Við fengum fullfermi, sem er 2.100 tonn, í sjö holum. Holin voru yfirleitt 12 – 18 tímar nema það síðasta sem var mjög stutt og tekið til að fylla. Aflinn var frá 230 tonnum og upp í 430 tonn í holi. Kolmunnaveiðin í færeysku lögsögunni að undanförnu hefur verið mjög góð. Hún hófst í byrjun aprílmánaðar og við erum búnir að taka fimm túra. Í reyndinni gekk þetta bara eins og í sögu. Þetta var okkar síðasti túr að sinni. Nú verður landað og síðan verða veiðarfærin tekin í land og allt skrúbbað og þrifið og dyttað’ að ýmsu. Makríllinn er næst á dagskrá hjá okkur en á hann verður vart farið fyrr en seinni part júnímánaðar,” sagði Þorkell.

Nú er Beitir NK eina Síldarvinnsluskipið sem er að kolmunnaveiðum en Börkur NK lauk veiðunum í síðustu viku.