
Línuskip Vísis, Sighvatur GK, kom til löndunar í heimahöfn í Grindavík í gærmorgun. Aflinn var 110 tonn, mest langa en einnig nokkuð af þorski og ýsu. Heimasíðan ræddi við Aðalstein Rúnar Friðþjófsson skipstjóra og spurði fyrst hvar hefði verið veitt. “Við vorum í Meðallandsbugtinni allan túrinn og lögðum fjóra og hálfa lögn. Lögnin er 43.000 krókar en lengdin á línunni er sextíu kílómetrar. Það er 1,4 metrar á milli króka á línunni. Aflinn var mest langa og það var akkúrat það sem við vildum. Þetta var óskaaflasamsetning. Við urðum ekkert varir við loðnu í túrnum en aðeins varir við síld. Það var hvasst og mikill straumur í þessari veiðiferð. Við vorum 25 tíma frá Grindavík í Meðallandsbugtina á móti veðri en einungis 14 tíma til baka,” sagði Aðalsteinn Rúnar.
Sighvatur hélt á ný til veiða í gærkvöldi.