
Síldarvinnslan gefur starfsfólki kost á að gera samgöngusamning við fyrirtækið sjöunda árið í röð. Samningurinn getur gilt fyrir tímabilið frá 1. maí til 31. október eða hluta þess tímabils. Slíkur samningur felur í sér að viðkomandi starfsmaður fer fótgangandi eða hjólandi í og úr vinnu að minsta kosti fjóra daga hverrar viku og fær styrkupphæð sem nemur 11.000 kr. á mánuði. Styrkurinn er undanþeginn skatti.
Að sögn Hákonar Ernusonar starfsmannastjóra hafa fjölmargir starfsmenn gert slíkan samning á undanförnum árum en þeir mættu gjarnan vera fleiri. Hann leggur áherslu á að samningurinn stuðli að bættri heilsu.
Starfsmenn, sem áhuga hafa á að gera samgöngusamning við fyrirtækið, skulu snúa sér til stjórnenda á viðkomandi vinnustað eða starfsmannastjórans (). Fyrir liggur að sjómönnum gefst ekki kostur á að gera samgöngusamning en þeir eru hvattir til að stunda holla og góða hreyfingu.