Vestmannaey VE kemur til hafnar. Ljósm. Guðmundur Alfreðsson

Vestmannaeyjatogararnir Bergur VE og Vestmannaey VE lönduðu báðir í heimahöfn í dag. Um er að ræða síðasta túr þeirra fyrir jólahátíðina. Heimasíðan sló á þráðinn til skipstjóranna og spurði frétta. Ragnar Waage Pálmason, skipstjóri á Bergi, sagði að túrinn hefði verið heldur erfiður. „Það var skítaveður nánast allan túrinn og við vorum á sífelldum flótta undan veðrinu. Við byrjuðum austur á Breiðdalsgrunni og síðan var farið á Gula teppið og eftir það verið Utanfótar. Þaðan lá leiðin á Papagrunn þar sem fékkst ufsi og síðan var klárað á Ingólfshöfða og í Skeiðarárdýpinu. Veiðin var afar róleg eftir að komið var vestur fyrir Hornafjörð og veðrið var ekki til að bæta úr skák. Það er víst vetur og allra veðra von. Það blæs stundum mjög hressilega á okkur en menn verða bara að gera eins gott úr þessu og mögulegt er. Nú erum við komnir í gott jólafrí en hugsanlegt er að haldið verði til veiða á milli hátíða,“ sagði Ragnar.

Birgir Þór Sverrisson, skipstjóri á Vestmannaey, hafði svipaða sögu að segja og Ragnar. „Þetta var bölvaður brælutúr. Við byrjuðum á Skrúðsgrunni í ágætis kroppi og fórum síðan suður í Hvalbakshall en þar var lítið að hafa. Þá lá leiðin á Papagrunn þar sem fengust tvö ágæt ufsahol. Þegar komið var suður fyrir landið var stoppað á Ingólfshöfða en þar var ekkert að hafa og eftir það enduðum við í ýsureytingi á Síðugrunni. Það voru bölvaðar sunnanbrælur í túrnum og í nótt var austanstormur. Það er ósköp gott að vera kominn í land og framundan er jólafrí,“ segir Birgir Þór.