Boðið var upp á síldarsmakk í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað í gær og er þetta annað árið sem boðið er upp á slíkt smakk þar. Á boðstólum var jólasíld frá mörgum fyrirtækjum auk síldar frá Síldarvinnslunni sjálfri. Þarna var síld frá Eskju á Eskifirði, Loðnuvinnslunni á Fáskrúðsfirði, Brim í Reykjavík, Ósnesi á Djúpavogi, Vinnslustöðinni í Vestmannaeyjum, Ísfélaginu í Vestmannaeyjum, Ísfélaginu á Þórshöfn og frá Skinney – Þinganesi á Hornafirði. Að auki var boðið upp á dýrindis síldarsalöt sem starfsfólkið í eldhúsi fiskiðjuversins hafði útbúið. Starfsmönnum Síldarvinnslunnar var boðið í smakkið og þar komu einnig fyrrverandi starfsmenn.
Þarna smökkuðu menn síldina frá hverjum framleiðanda af vísindalegri nákvæmni og síðan áttu sér stað tilfinningaríkar umræður um bragð og gæði. Augljóst var að allir sem þarna komu nutu stundarinnar til hins ítrasta og kvöddu saddir og glaðir að henni lokinni.
Geir Sigurpáll Hlöðversson, rekstrarstjóri fiskiðjuversins, segir að boðið sé upp á síldarsmakkið til gamans. Þá segir hann það vera skemmtilegt hve mörg fyrirtæki leggja áherslu á að framleiða jólasíld og hve vel fólk kann að meta síldina. “Það er alltaf heilmikil stemmning í kringum jólasíldina og fólk nýtur hennar vel,” segir Geir Sigurpáll.