Síldarvertíðinni austur af landinu lauk nýverið og gekk hún vel í alla staði. Norsk – íslenska síldin sem veiddist var stór og falleg og íslenska sumargotssíldin, sem veiddist í bland við hana, reyndist vel haldin. Fyrsti síldarfarmurinn á vertíðinni barst til fiskiðjuvers Síldarvinnslunnar í Neskaupstað 31. ágúst og sá síðasti 22. október. Vinnslu á síldinni lauk síðan í verinu aðfaranótt 24. október. Á vertíðinni lögðu þrjú Síldarvinnsluskip, Barði NK, Beitir NK og Börkur NK, upp síldarafla í fiskiðjuver Síldarvinnslunnar auk Hákonar EA og Vilhelms Þorsteinssonar EA.
Heimasíðan ræddi við nokkra skipstjóra á Síldarvinnsluskipum og spurði þá hvað hefði helst einkennt þessa síldarvertíð. Hjá þeim kom fram að veiðarnar hefðu gengið mjög vel í alla staði. Stutt var að fara á miðin en mest var veitt frá Héraðsflóanum og suður í Norðfjarðardýpi. Sigling á miðin frá Neskaupstað var frá 60 og niður í 30 mílur. Veiðiferðir á vertíðinni voru stuttar og almennt voru holin mjög stutt. Aflinn var fluttur vel kældur að landi þannig að vart var hægt að hugsa sér ferskari afla til vinnslu. Þá ber að nefna að veiðunum var stýrt með það í huga að hámarka gæði hráefnisins sem unnið var. Síldin sem fékkst var góð. Meðalvigt norsk – íslensku síldarinnar var um og yfir 400 grömm og meðalvigt íslensku sumargotssíldarinnar yfir 300 grömm. Hlutfall íslenskrar sumargotssíldar sem veiddist með norsk – íslensku síldinni fór vaxandi þegar leið á vertíðina en þá var norsk – íslenska síldin farin að síga burt frá landinu.
Geir Sigurpáll Hlöðversson, rekstrarstjóri fiskiðjuversins, segir að vinnsla síldarinnar á vertíðinni hafi gengið afar vel enda hafi skipin komið með frábært hráefni að landi, bæði vel kælt og nýveitt. Þá segir hann að afköstin í verinu hafi verið mjög góð og í reynd hafi allt gengið eins og í sögu. Fiskiðjuverið tók á móti 23.000 tonnum af síld á vertíðinni, 17.000 tonnum af norsk – íslenskri síld og um 6.000 tonnum af íslenskri sumargotssíld. Í fiskiðjuverinu voru framleidd 14.500 tonn af afurðum, 9.600 tonn af heilfrystri síld og tæp 5.000 tonn af flökum.
Hafþór Eiríksson, rekstrarstjóri fiskimjölsverksmiðja Síldarvinnslunnar, segir að engri síld hafi verið landað beint til vinnslu í verksmiðjuna í Neskaupstað á vertíðinni. Hráefnið var svo gott að það flokkaðist afar lítið frá í fiskiðjuverinu og megnið fór til manneldisvinnslunnar. Það sem fiskimjölsverksmiðjan fékk til sín var fyrst og fremst afskurður. Afskurðurinn var úrvalshráefni til framleiðslu á mjöli og lýsi.
Stefán Einar Elmarsson, yfirverkstjóri í frystigeymslum Síldarvinnslunnar í Neskaupstað, upplýsir að rúmlega 7.000 tonn af framleiðslunni á síldarvertíðinni séu þegar farinn í útflutning og um 2.000 tonn til viðbótar fari á næstu dögum.
Nú eru veiðar hafnar á íslenskri sumargotssíld fyrir vestan land þannig að vinnsla síldar mun halda áfram af fullum krafti hjá Síldarvinnslunni.