Hér verður horfið sextíu ár aftur í tímann og fjallað í stuttu máli um starfsemi Síldarvinnslunnar hf. árið 1965. Þá voru liðin átta ár frá stofnun fyrirtækisins en Síldarvinnslan var stofnuð árið 1957 í þeim tilgangi að reisa og reka síldarverksmiðju og annast verkun síldar.

Síldarverksmiðja Síldarvinnslunnar sumarið 1965.
Ljósm. Hjörleifur Guttormsson

Það var nóg að gera í síldarverksmiðju Síldarvinnslunnar árið 1965. Vinnsla hófst þann 11. júní og henni lauk ekki fyrr en 29. janúar árið 1966. Á árinu 1964 hófust fyrst haust- og vetrarsíldveiðar úti fyrir Austfjörðum og kom það mönnum verulega á óvart að síldin skyldi halda sig þar eftir að hausta tók en árin á undan hafði síldveiðum lokið þegar sumri tók að halla. Árið 1965 gengu haust- og vetrarveiðarnar vel og segja má með sanni að á Austfjörðum hafi þá allt snúist um blessaða síldina.

Árið 1965 tók síldarverksmiðja Síldarvinnslunnar á móti 70.200 tonnum af síld til vinnslu. Í verksmiðjunni voru framleidd 14.797 tonn af síldarmjöli á árinu og 10.220 tonn af síldarlýsi. Hér var um framleiðslumet að ræða.


Nýtt mjölgeymsluhús í byggingu sumarið 1965. Ljósm. Kristinn Ívarsson

Sífellt var unnið að umbótum á síldarverksmiðjunni og þá þurfti einnig að bæta við hráefnisgeymslum. Sumarið 1965 var var byggður nýr lýsisgeymir og var hann reistur í hlíðinni ofan við verksmiðjuna þar sem annar lýsisgeymir var fyrir. Nýi geymirinn rúmaði 2.850 tonn. Einnig reyndist nauðsynlegt að byggja nýtt mjölgeymsluhús og var það gert neðan við svonefnda togaraskemmu sem stóð innan við verksmiðjuhúsin. Um var að ræða járnklætt stálgrindarhús sem var 60 metrar að lengd.


Árið 1963 ákvað stjórn Síldarvinnslunnar að fyrirtækið skyldi hefja útgerð með eigin skipum en síðar var ákveðið að taka Gullfaxa NK á leigu á vetrarvertíðinni 1964. Ákveðið var að festa kaup á 264 lesta skipi sem smíðað yrði í Austur-Þýskalandi. Bjartsýni og trú manna á aukinni síldveiði varð til þess að stjórnin ákvað árið 1964 að festa kaup á öðru samskonar skipi. Ýmsir töldu að hér væri of geyst farið en trúin á síldveiðarnar var mikil og stjórn fyrirtækisins sannfærð um að skipakaupin væru skynsamleg. Til stóð að afhenda Síldarvinnslunni fyrra skipið í árslok 1964 en þegar skipið var á reynslusiglingu á Elbufljóti þann 20. desember sigldi flutningaskip á það og urðu á því verulegar skemmdir. Varð þetta óhapp til þess að afhendingu seinkaði og kom það ekki til heimahafnar í Neskaupstað fyrr en þann 5. mars árið 1965. Síðara skipið kom síðan í fyrsta sinn til heimahafnar þann 14. maí 1965. Skipin hlutu nöfnin Barði og Bjartur og voru þau einkum byggð með síldveiðar í huga. Árið 1965 er því upphafsár útgerðar Síldarvinnslunnar og var Jóhann K. Sigurðsson ráðinn fyrsti framkvæmdastjóri hennar.

Síldarvinnslan hóf útgerð eigin skipa árið 1965. Á myndinni eru fyrstu skipin í eigu fyrirtækisins, Barði NK og Bjartur NK. Ljósm. v. Linden

Árið 1965 festi Síldarvinnslan kaup á framleiðslufyrirtækjum Samvinnufélags útgerðarmanna í Neskaupstað (SÚN) en samvinnufélagið hafði verið stærsti eigandinn í Síldarvinnslunni frá stofnun. Helsta framleiðslufyrirtækið sem hér um ræðir var hraðfrystihús sem SÚN hafði rekið frá árinu 1949. Athyglisvert er að á árinu 1965 voru einungis 175 tonn af bolfiski unnin í hraðfrystihúsinu á meðan framleidd voru 1.679 tonn af frystri síld til útflutnings. Það fer því ekkert á milli mála að megináherslan var lögð á síldarfrystingu í rekstri hraðfrystihússins.

Síldarvinnslan hóf framleiðslu á skreið eftir kaupin á framleiðslufyrirtækjum SÚN. Árið 1965 voru framleiddir 607 pakkar af skreið en hver pakki var 45 – 50 kg, Skreiðarhjallarnir voru ”inni á Sandi” eða inn af fjarðarbotni. Þar voru skreiðarhjallar Síldarvinnslunnar til ársins 1975 en þá þurftu þeir að víkja vegna hafnarframkvæmda á svæðinu.

Á árinu 1965 framleiddi Síldarvinnslan einungis 14 tonn af saltfiski til útflutnings. Saltfiskverkun á vegum fyrirtækisins hófst ekki fyrir alvöru fyrr en árið 1968.


Síld söltuð á söltunarstöð Síldarvinnslunnar sumarið 1965. Ljósm. Kristján Vilmundarson

Eitt þeirra framleiðslufyrirtækja sem Síldarvinnslan festi kaup á árið 1965 var síldarsöltunarstöðin Ás en SÚN hafði verið eigandi hennar í félagi við aðra frá árinu 1962. Árið 1966 var nafni stöðvarinnar breytt í Síldarsöltunarstöð SVN enda var Síldarvinnslan þá eini eigandinn. Árið 1965 voru saltaðar 11.514 tunnur á Síldarsöltunarstöð SVN. Alls var saltað á sex síldarsöltunarstöðvum í Neskaupstað árið 1965 og samtals nam söltunin á staðnum 50.968 tunnum.

Á aðalfundi Síldarvinnslunnar árið 1966 upplýsti Hermann Lárusson framkvæmdastjóri að hagnaður af landvinnslu fyrirtækisins hefði verið rúmlega 14 milljónir króna á árinu 1965 en hagnaður af útgerðinni reyndist vera tæplega 3 milljónir króna. Hluthafar voru mjög sáttir við þá niðurstöðu.

Síldarvinnslan festi kaup á framleiðslufyrirtækjum Samvinnufélags útgerðarmanna árið 1965. Á myndinni sést hraðfrystihúsið. Ljósm. v. Linden