
Í gær var endanlega gengið frá styrktarsamningi Síldarvinnslunnar við íþróttafélagið Þrótt í Neskaupstað fyrir árið 2025. Allir fjármunirnir sem um ræðir renna til starfsins hjá yngri flokkum félagsins. Þróttur er deildaskipt félag og því fá blakdeild, knattspyrnudeild, skíðadeild og sunddeild hver um sig sinn hluta styrksins. Petra Lind Sigurðardóttir, formaður Þróttar, sagði að styrkur sem þessi væri félaginu afar mikilvægur. “Það skiptir öllu máli fyrir Þrótt að eiga að fyrirtæki sem sýna íþróttastarfinu í bænum áhuga og skilning. Það eru styrkir frá Síldarvinnslunni og fleiri fyrirtækjum sem tryggja að unnt sé að halda uppi öflugu íþróttastarfi og að vel sé staðið að þjálfun. Styrkir sem þessi eru forsenda þess að áframhald verði á kröftugu íþróttastarfi í Neskaupstað en iðkendafjöldinn hjá Þrótti hefur verið mjög mikill miðað við það sem annars staðar gerist og að auki æfa flest börnin tvær og jafnvel þrjár íþróttagreinar. Við hjá Þrótti erum afskaplega þakklát fyrir þann skilning sem fyrirtæki eins og Síldarvinnslan sýna íþróttastarfinu og það er ómetanlegt fyrir æsku bæjarins að eiga að slíka styrktaraðila,” sagði Petra Lind.
Gunnþór B. Ingvason forstjóri Síldarvinnslunnar sagði að Síldarvinnslan væri stolt af því að geta lagt samfélagslega mikilvægu starfi Þróttar lið. “Íþrótta- og æskulýðsstarf er öllum samfélögum afar dýrmætt. Margir sjálfboðaliðar koma að slíku starfi og það eru þeir sem gera það jafn öflugt og raun ber vitni. Utanumhald um allt barna- og unglingastarf eins og Þróttur sinnir vegur þungt og starfið hefur mikið uppeldislegt gildi og einnig forvarnargildi. Það er hverju samfélagi dýrmætt að eiga öflugt félag sem sinnir íþrótta- og æskulýðsstarfi og það fer ekkert á milli mála að Síldarvinnslan vill styrkja slíkt starf,” sagði Gunnþór.