Stefán Pálsson markaðsstjóri SÁÁ og Hákon Ernuson starfsmannastjóri Síldarvinnslunnar innsigla samstarfið.
Ljósm. Hörður J. Oddfríðarson

Um síðustu mánaðamót komu fulltrúar SÁÁ í heimsókn til Neskaupstaðar og áttu fund með starfsmannastjóra og fleiri starfsmönnum Síldarvinnslunnar. Þarna voru á ferð Stefán Pálsson markaðsstjóri SÁÁ og verkefnastjórarnir Hörður J. Oddfríðarson og Guðný Pálsdóttir. Fræddu gestirnir Síldarvinnslumenn um starfsemi SÁÁ og kynntu sérstaklega hina svonefndu Vinnustaðavakt sem SÁÁ býður upp á. Fyrirtæki eiga kost á að taka þátt í Vinnustaðavaktinni og njóta þeirrar þjónustu sem í henni felst. Vinnustaðavaktin byggir á eftirfarandi:

  • SÁÁ kynnir fyrir stjórnendum hvernig best er að móta viðbragðsáætlun varðandi áfengis- og vímuefnavanda sem kann að koma upp á vinnustöðum fyrirtækisins
  • SÁÁ kynnir fyrir stjórnendum þær meðferðaleiðir og þá þjónustu sem boðið er upp á hjá SÁÁ
  • Vinnustaðirnir fá sérstakan tengilið hjá SÁÁ
  • SÁÁ býður upp á fræðslufyrirlestra fyrir starfsfólk bæði á íslensku og ensku
  • SÁÁ býður á fræðsluefni í rafrænu formi fyrir starfsfólk

Ákveðið hefur verið að Síldarvinnslan taki þátt í Vinnustaðavakt SÁÁ og njóti þar með þeirrar fræðslu og þess stuðnings sem SÁÁ býður upp á. Hákon Ernuson starfsmannastjóri Síldarvinnslunnar, segir að hann bindi miklar vonir við samstarfið við SÁÁ. “Það skiptir miklu máli að faglega sé tekið á málum þegar koma upp áfengis- eða fíkniefnavandamál hjá starfsfólki fyrirtækisins. Með samstarfi við SÁÁ fæst innsýn í hvernig best er að taka á slíkum vanda ásamt því að sú fræðsla sem SÁÁ býður upp á dregur úr líkum á að slík vandamál komi upp. Ég er sannfærður um að samstarfið við SÁÁ verður farsælt og það er skynsamlegt að hafa það í því formi sem Vinnustaðavaktin býður upp á,” segir Hákon.

Tekið skal fram að starfsmenn sem eiga við fíknivanda að etja geta ávallt leitað til starfsmannastjóra og átt við hann viðræður í fullum trúnaði.