Í gærmorgun var lokið við að vinna síld úr Berki NK í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað og hófst þá vinnsla á síld úr Vilhelm Þorsteinssyni EA. Afli Vilhelms Þorsteinssonar er tæp 900 tonn og segir Guðmundur Þ. Jónsson skipstjóri að hann hafi fengist í þremur holum. “Þetta fór heldur hægt af stað hjá okkur en var miklu betra undir lokin. Við vorum að veiðum á Héraðsflóanum. Í fyrsta holinu fengum við 270 tonn, 120 tonn í öðru og 490 í lokaholinu. Í fyrri tveimur holunum var dregið í fimm til sex tíma en í síðasta holinu einungis í tvo og hálfan tíma. Það eru síldarblettir sem þarf að finna,” segir Guðmundur.
Geir Sigurpáll Hlöðversson, rekstrarstjóri fiskiðjuversins, segir að um sé að ræða afar góða síld. “ Síldin er stinn og góð og hentar afskaplega vel til vinnslu enda er hún veidd hér við bæjardyrnar. Í fiskiðjuverinu er lögð áhersla á að heilfrysta stærri síldina en síðan eru einnig framleidd samflök. Síldin rennur ljúflega í gegn hjá okkur og það er ánægjulegt að vinna hráefni eins og þetta,” segir Geir Sigurpáll.