
Línuskipin Páll Jónsson GK og Sighvatur GK hafa bæði landað hjá Vísi í Grindavík í vikunni og einnig togarinn Jóhanna Gísladóttir GK. Páll Jónsson landaði sl. mánudag og er síðan að landa á ný í dag. Benedikt Jónsson skipstjóri segir að nú sé lögð áhersla á að reyna að veiða keilu. “Við vorum allan fyrri túrinn úti á Fjöllum að reyna við keilu. Það hefði mátt ganga betur. Einhverra hluta vegna er erfitt að sækja hana á hefðbundin mið en hins vegar virðist vera nóg af löngu. Aflinn hjá okkur í þessum fyrri túr var 85 tonn og fékkst hann í sex lögnum. Farið var út strax eftir löndun og nú er verið að landa slatta í dag. Síðan eru bara sjómannadagshátíðarhöld framundan og allir glaðir,” segir Benedikt.
Óli Björn Björgvinsson, skipstjóri á Sighvati, tekur undir með Benedikt hvað keiluna varðar en Sighvatur landaði í gær. ”Við vorum með rúmlega 100 tonn sem fengust í sex lögnum. Veitt var á Eyjasvæðinu. Við byrjuðum vestan við Surt og vorum síðan í köntunum sunnan við Surtseyna. Við reyndum eftir megni að ná keilu en það virðist bara ekki vera mikið af henni. Hins vegar virðist vera nóg af löngu og var langa 60% af aflanum. Nú er Sjóarinn síkáti, sjómannadagshátíðarhöldin, framundan og menn munu njóta þeirra,” sagði Óli Björn.
Togarinn Jóhanna Gísladóttir GK er einnig að landa í dag að loknum stuttum túr.