
Ísfisktogarinn Gullver landaði í heimahöfn á Seyðisfirði í gær. Aflinn var 106 tonn, mest ýsa og þorskur. Heimasíðan ræddi við Þórhall Jónsson skipstjóra og spurði fyrst hvar hefði verið veitt. ”Við vorum á Hvalbaksgrunni og Gauraslóð og það var var þokkalegasta veður allan tímann. Það hafa verið heldur róleg aflabrögð að undanförnu en það koma þokkaleg skot annað veifið. Að lokinni löndun er ráðgert að fara í stuttan túr en skipið á að fara í slipp til Akureyrar að honum loknum. Hér er um að ræða hefðbundinn slipp sem gæti tekið um hálfan mánuð en að honum loknum verður stopp fram til 10. ágúst,” sagði Þórhallur.