Gullver NS kom til Seyðisfjarðar snemma í morgun að afloknum vel heppnuðum túr. Afli skipsins er 129 tonn, mest þorskur en einnig ýsa og ufsi. Landað verður úr skipinu í dag. Heimasíðan heyrði í Þórhalli Jónssyni skipstjóra og spurði frétta. “Þessi veiðiferð gekk afar vel. Við byrjuðum veiðar á Breiðdalsgrunni, síðan var haldið í Hvalbakshallið og þá í Berufjarðarálinn. Við enduðum síðan á Barðinu ofarlega í Berufjarðarálnum. Það var góður afli allan tímann og skipið er smekkfullt, en við vorum um þrjá og hálfan sólarhring að veiðum. Til að byrja með var kaldafýla en síðan var veðrið ágætt. Menn geta ekki verið annað en kátir með túr eins og þennan,” segir Þórhallur.
Gert er ráð fyrir að Gullver haldi á ný til veiða í kvöld.