Páll Jónsson GK. Ljósm. Jón Steinar Sæmundsson

Línuskipið Páll Jónsson GK landaði í Grindavík á föstudag og línuskipið Sighvatur GK landaði á Skagaströnd í dag. Heimasíðan ræddi stuttlega við skipstjórana og spurði hvernig aflast hefði og hvar veitt hefði verið.

Jónas Ingi Sigurðsson, skipstjóri á Páli Jónssyni, sagði að þeir hefðu verið með 46 tonn úr þremur lögnum og hefði aflinn fengist á Eldeyjarbankanum. „Þetta gekk bara vel og veðrið var gott. Ýsa er um helmingur aflans og síðan er þetta mestmegnis þorskur,“ sagði Jónas Ingi.

Aðalsteinn Rúnar Friðþjófsson, skipstjóri á Sighvati, var einnig sáttur við túrinn. „Við vorum að vísu að færa okkur til eftir hverja lögn í leit að ýsu en aflinn var 80 tonn, mest þorskur en ein 25 tonn af ýsu með. Fyrst var lagt á Húnaflóaás, síðan á Sporðagrunni, þá á Skagagrunni og endað við Barminn,“ sagði Aðalsteinn Rúnar.

Að lokinni löndun hélt Páll Jónsson austur fyrir land og Sighvatur lét úr höfn strax að löndun lokinni. Bæði skip munu síðan landa í Grindavík á fimmtudag og eftir það er árshátíðarferð til Póllands á dagskrá hjá áhöfnunum. Þannig að yfirstandandi túrar verða stuttir hjá skipunum og þá einkum hjá Sighvati.