Bergur VE lætur úr höfn í Eyjum. Ljósm. Valtýr Bjarnason

Eyjatogararnir Bergur VE og Vestmannaey VE lönduðu í heimahöfn á sunnudaginn að afloknum stuttum túr. Bæði skip voru að veiðum í um það bil einn og hálfan sólarhring og var aflinn rúmlega 60 tonn hjá hvoru. Verið var að veiðum rétt vestan við Eyjar, við Skötuhrygg. Jón Valgeirsson, skipstjóri á Bergi, sagði að vel hafi fiskast. ”Þarna var fínasta veiði, mest þorskur og ýsa og ufsi í bland. Síðan var öllu vestursvæðinu lokað vegna hrygningastopps en það verður opnað á ný á annan í páskum,” sagði Jón.

Birgir Þór Sverrisson, skipstjóri á Vestmannaey, lét vel af veiðinni. ”Það var ágæt veiði en svæðinu var lokað auk þess sem brældi og þá var farið í land. Nú er komið páskafrí hjá mannskapnum og það verður ekki haldið til veiða á ný fyrr en á annan í páskum,” sagði Birgir Þór.