Systurskipin Börkur NK og Vilhelm Þorsteinsson EA að veiðum. Ljósm. Helgi Freyr Ólason

Systurskipin Vilhelm Þorsteinsson EA og Börkur NK eru bæði komin til Neskaupstaðar með fullfermi af kolmunna sem fékkst í færeysku lögsögunni. Vilhelm kom á laugardag og Börkur í morgun. Bæði skip eru með 3.100 – 3.200 tonn og er landað úr þeim nánast jafnóðum og aflinn er unninn enda er kolmunninn best geymdur kældur um borð í skipunum.

Guðmundur Þ. Jónsson, skipstjóri á Vilhelm Þorsteinssyni, var mjög ánægður með veiðina. Hann sagði að aflinn hefði fengist í sjö holum og það hafi verið frá 220 tonnum og upp í 600 tonn í holi. “Þetta var hinn fínasti túr og nú eru jólin framundan. Það eru allir spenntir að komast heim fyrir hátíðar,” sagði Guðmundur.

Hálfdan Hálfdanarson, skipstjóri á Berki, tók undir með Guðmundi og sagði að túrinn hefði verið virkilega góður. “Við fengum aflann í níu holum og þau voru misjafnlega stór eða frá 220 tonnum og upp í 600 tonn. Það var dregið í 14 – 15 tíma. Þetta telst vera mjög góð veiði en þetta er þó ekki sama mokið og var áður en við komum á miðin. Veðrið í túrnum var eins og best gerist en veiðisvæðið er austsuðaustur af Færeyjum. Nú erum við að dytta að veiðarfærum og tryggja að allt sé klárt þegar haldið verður til veiða á nýju ári. Síðan verður byrjað að landa í fyrramálið og að því loknu verður komið jólafrí. Nú bíða allir eftir loðnufréttum og menn vona heitt og innilega að það verði loðnuvertíð – það væri svo óskaplega gott að fá einhver tonn af loðnunni,” sagði Hálfdan.

Hafþór Eiríksson, verksmiðjustjóri fiskimjölsverksmiðjunnar í Neskaupstað, sagði að hráefnið sem skipin kæmu með að landi væri hið besta. “Þetta er frábært hráefni, fiskurinn er feitur og flottur og það gengur mjög vel að vinna hann,” sagði Hafþór. Þá kom fram að Hafþór reiknaði með að vinnslu á aflanum lyki á föstudag.