Börkur NK siglir inn Norðfjörð í rokinu í gær. Ljósm. Guðlaugur Björn Birgisson

Á yfirstandandi vertíð hefur fiskiðjuver Síldarvinnslunnar í Neskaupstað tekið á móti rúmlega 15.000 tonnum af síld til vinnslu. Geir Sigurpáll Hlöðversson, rekstrarstjóri fiskiðjuversins, segir að vinnslan hafi gengið afar vel á vertíðinni og hráefnið verið gott. Hann segir að stærsta síldin sé heilfryst en um þessar mundir séu einnig framleidd samflök og roðlaus flök.

Börkur NK kom í gær með 860 tonn af síld til vinnslu og heyrði heimasíðan hljóðið í Hálfdani Hálfdanarsyni skipstjóra. “Það er ekki hægt að vera annað en ánægður með þessa vertíð. Hún hefur gengið vel í alla staði. Þessi túr stóð í þrjátíu tíma og aflinn fékkst í þremur holum í Bakkaflóadýpinu. Almennt er dregið í einn til tvo tíma í hverju holi. Síldin sem við fengum núna er heldur smærri en áður en engu að síður er um fínustu síld að ræða sem hentar vel til vinnslu. Það er ávallt eitthvað af íslenskri sumargotssíld í aflanum en meirihlutinn er norsk – íslensk síld. Nú fer að líða að lokum þessarar vertíðar en í kjölfar hennar verður farið að hyggja að veiðum á íslenskri sumargotssíld,” sagði Hálfdan.