Skipin sem komu með fyrstu makrílfarmana til Neskaupstaðar á þessari vertíð; Vilhelm Þorsteinsson EA og Beitir NK. Myndin er tekin í morgun þegar löndun úr Beiti var að ljúka. Ljósm. Hákon Ernuson

Vilhelm Þorsteinsson EA kom með 850 tonn af makríl til hafnar í Neskaupstað í morgun en verið að að ljúka við að vinna tæp 500 tonn úr Beiti NK í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar. Það eru ávallt tímamót þegar ný vertíð hefst og nú er makrílvertíð þessa árs hafin fyrir alvöru.

Tómas Kárason skipstjóri á Beiti og Birkir Hreinsson skipstjóri á Vilhelm Þorsteinssyni ánægðir við upphaf makrílvertíðar. Ljósm. Hákon Ernuson

Birkir Hreinsson, skipstjóri á Vilhelm, segir að menn séu bjartsýnir og ánægðir með að vertíðin skuli vera byrjuð. “Það sem skiptir miklu máli er að það skuli veiðast makríll í íslenskri lögsögu. Það munar svo miklu að geta veitt hann í lögsögunni eða þurfa sækja hann í Smuguna. Þessi afli sem við erum með fékkst í Smugunni og á Börkur hlutdeild í honum. Mér sýnist vertíðin nú fara af stað svipað og í fyrra, holin eru ekki stór og því er veiðisamstarfið mikilvægt. Nú eru öll skipin komin í íslenska lögsögu en þar fæst stærri fiskur en fæst í Smugunni. Makríllinn sem við erum með er um og yfir 400 grömm og það er svolítil áta í honum,” segir Birkir.