
Vestmannaeyjatogararnir Bergur VE og Vestmannaey VE lönduðu í heimahöfn á miðvikudaginn en Bergur hafði áður landað á sunnudag. Heimasíðan ræddi við skipstjórana og spurði frétta.
Birgir Þór Sverrisson, skipstjóri á Vestmannaey, sagði að veiðin hefði gengið þokkalega. “Við vorum að eltast við ufsa í þessum túr og það var mest af ufsa í aflanum en síðan var þetta þorskur, ýsa og langa. Það verður að blanda aflann og því var ufsinn á dagskrá núna. Túrinn var tvískiptur. Við byrjuðum á að taka þrjú hol en síðan brældi hressilega og þá var farið í land. Þegar veðrið gekk niður var farið út aftur og klárað að fylla. Að þessu sinni vorum við að veiðum suður af Selvogsbankanum í kringum Sjötíu faðma blettina. Þó að gangi þokkalega að veiða finnst mér enginn kraftur í þessu. Það koma þó vissulega glennur með góðri veiði en það þarf töluvert að hafa fyrir þessu. Þetta er ekki dæmigerð vertíð, það verður að segjast,” sagði Birgir Þór.
Jón Valgeirsson, skipstjóri á Bergi, lét alls ekki illa af sér. ”Það er búin að vera ágætis veiði, allavega kvörtum við ekki. Það var landað á sunnudaginn og síðan haldið til veiða á ný þegar brælan kláraðist. Það var fókuserað á ufsa í báðum þessum túrum og aflinn var mest ufsi og síðan þorskur. Við vorum að veiðum á Skötuhrygg og Ólahólum. Af einhverjum ástæðum safnast skata saman á Skötuhrygg og í einu holinu þar fengum við um eitt tonn af skötu. Hvers vegna skatan kann svona vel við sig þarna á hryggnum veit ég ekki,” sagði Jón.
Vestmannaey hélt til veiða á ný eftir hádegið í gær og Bergur síðdegis.