Nú er væntanlega stystu loðnuvertíð sögunnar lokið. Mælingar sýna að loðnustofninn sé í mikilli lægð og eðlilega velta menn fyrir sér hvers vegna. Ein skýring, sem hvað oftast er nefnd, er fjölgun hvala en talningar hafa sýnt mikla fjölgun bæði langreyða og hnúfubaka og vitað er að báðar þessar tegundir sækja í loðnuna, ekki síst hnúfubakurinn.

Fyrir nokkru veiddi grænlenska skipið Polar Amaroq loðnu við Snæfellsnes og fór norður fyrir land til Neskaupstaðar þar sem loðnunni var landað. Norður af Skagatá varð áhöfnin vör við talsverðan fjölda hvala og við nánari athugun kom í ljós að þarna voru fallegar og þéttar loðnutorfur og voru hvalirnir án efa að gæða sér á loðnunni.

Að löndun lokinni í Neskaupstað hélt Polar Amaroq rakleiðis á svæðið þar sem þeir höfðu séð torfurnar. Þegar þangað kom var allt krökkt af hval og hvalablásturinn gerði það að verkum að þetta var eins og gríðarstórt hverasvæði. Geir Zoёga, skipstjóri á Polar Amaroq, segist aldrei hafa séð annað eins. Þarna skiptu hvalirnir líklega hundruðum allt í kringum bátinn og hvalurinn var búinn að sprengja upp loðnutorfurnar fallegu sem þarna höfðu verið.

Geir Zoëga segir að nú sé kominn tími til að rannsaka hvalastofnana við landið ítarlega. Vöxtur þessara stofna sé engu líkur. „Ég man þá tíð að ef að sást hvalur þá var kallað á mann til að sjá skepnuna, en nú eru hvalir úti um allt í kringum allt landið. Hnúfubakurinn er mest áberandi og ef er einhversstaðar loðna á ferðinni þá er hann mættur, ekki einn og einn heldur svo hundruðum skiptir. Það hlýtur að þurfa að rannsaka hvalina betur en gert hefur verið og það verður bókstaflega að komast að því hvað hvalirnir éta og í hve miklu magni. Ég held að blasi við að þeir éti milljónir tonna af fiski og loðnan virðist vera í miklu uppáhaldi hjá þeim,“ segir Geir.

Meðfylgjandi er myndband sem tekið var nýlega á loðnumiðunum.