
Línuskip Vísis, Páll Jónsson GK og Sighvatur GK, hafa að undanförnu verið að veiðum fyrir austan og suðaustan land. Páll Jónsson landaði á Djúpavogi á mánudag og Sighvatur landaði í heimahöfn í Grindavík í gær. Heimasíðan sló á þráðinn til skipstjóranna og spurðist frétta. Jónas Ingi Sigurðsson, skipstjóri á Páli Jónssyni, sagði að aflinn hjá þeim hefði verið rétt tæp 100 tonn. “Við vorum í Hornafjarðardýpinu allan tímann. Það var kaldaskítur í byrjun en síðan hið ágætasta veður. Við reyndum að blanda aflann og helmingurinn var þorskur en síðan var þetta mest langa og ýsa. Þetta er hinn ágætasti fiskur og engin ástæða til að kvarta,” sagði Jónas Ingi.
Sighvatur landaði í Grindavík í gærmorgun og var aflinn 105 tonn. Óli Björn Björgvinsson skipstjóri sagði að fiskiríið hefði verið gott. ”Við vorum í Norðfjarðardýpinu og þar fékkst fínasti fiskur. Nánast allur aflinn er þorskur og lagnirnar voru fjórar og hálf. Veðrið var gott að undanskildum fyrsta sólarhringnum en þá var kaldi. Þegar veiðum lauk hjá okkur áttum við fyrir höndum 36 -37 tíma stím til Grindavíkur en það voru um 310 mílur þangað frá miðunum,” sagði Óli Björn.
Bæði skip héldu til veiða á ný fljótlega að löndun lokinni.