Það hefur oft verið góður afli á kolmunnamiðunum niðri við Rockall. Ljósm. Helgi Freyr Ólason

Nú eru kolmunnaveiðar íslenskra skipa niður við Rockall að hefjast. Síldarvinnsluskipin Beitir NK og Börkur NK lögðu af stað á miðin um helgina og verður Beitir væntanlega kominn þangað síðdegis í dag og Börkur í kvöld. Mörg skip hafa verið þarna að veiðum upp á síðkastið og hefur afli ekki verið mikill til þessa. Heimasíðan ræddi við Grétar Örn Sigfinnsson rekstrarstjóra útgerðar Síldarvinnslunnar og spurði fyrst hvernig honum litist á veiðarnar. „Mér líst alls ekki illa á þær en hafa verður í huga að þær eru mjög háðar veðri. Nú hefur til dæmis verið bræla á miðunum og skipin hafa ekkert gert eftir að hún skall á. Þetta er opið hafsvæði og þarna gengur ýmislegt á veðurfarslega. Það er býsna langt fyrir okkar skip að sigla á þessi mið en það eru um 800 mílur frá Neskaupstað á veiðisvæðið. Þessar veiðar hafa oft gengið vel en skipin hafa farið tvo til þrjá túra á þessum árstíma þarna niðureftir. Í fyrra gekk þetta einstaklega vel en þá voru skipin einungis um tvo sólarhringa að fylla enda gott veður allan tímann. Nú eru okkar skip með öflugri veiðarfæri en áður en þarna reynir mjög á veiðarfærin. Trollin sem þau eru með núna eru minni en áður og allt í þeim er sverara og sterkara,“ sagði Grétar.