Á mánudagsmorgun kom Vestmannaey VE með Gullver NS í togi til Neskaupstaðar og sólarhring síðar kom Bergur VE þangað til löndunar. Heimasíðan ræddi stuttlega við skipstjóra skipanna þriggja. Þórhallur Jónsson, skipstjóri á Gullver, sagði að þeir hefðu verið að veiðum á Tangaflaki þegar kælivatnsdæla fyrir aðalvélina bilaði. “Við vorum komnir með 60 tonna afla, nær eingöngu þorsk og ýsu, þegar bilunin átti sér stað. Vestmannaey var ekki langt frá okkur og ákveðið var að hún tæki okkur í tog. Gert er ráð fyrir að viðgerð ljúki í kvöld og þá verður haldið á ný til veiða,” segir Þórhallur.
Birgir Þór Sverrisson, skipstjóri á Vestmannaey, segir að veiðiferðin hjá þeim hafi fengið óvænt endalok. “Við höfðum verið að veiðum í Norðfjarðardýpi og á Gerpisflaki þegar beiðni um aðstoð kom frá Gullveri. Í upphafi túrsins var blíða en þegar haldið var til aðstoðar Gullveri var kominn kaldaskítur. Aflinn sem við vorum komnir með var um 55 tonn, mestmegnis ýsa,” segir Birgir Þór.
Bergur VE kom til löndunar í gærmorgun með fullferrmi. Jón Valgeirsson skipstjóri segir að veður hafi verið þokkalegt í veiðiferðinni þar til brældi í blárestina. “Við vorum fyrst að veiðum á Glettinganesflaki, síðan á Gerpisflaki og loks á Tangaflaki. Mestur aflinn fékkst á Gerpisflaki og má segja að hann hafi skiptst til helminga, þorskur og ýsa,” segir Jón.
Bergur hélt til veiða á ný sl. nótt og Vestmannaey í morgun. Gert er ráð fyrir að þau landi í heimahöfn í Eyjum fljótlega eftir helgi.