Bjartur NK að landa. Ljósm. Hákon ErnusonBjartur NK að landa. Ljósm. Hákon ErnusonÍsfisktogarinn Bjartur NK er að landa í Neskaupstað í dag en um er að ræða fyrstu veiðiferð að afloknu togararalli. Veiðiferðin var stutt en aflinn um 75 tonn, eingöngu þorskur.
 
Frystitogarinn Barði NK kom einnig til heimahafnar í dag að afloknum góðum túr og mun verða landað úr skipinu á morgun. Afli skipsins er nánast eingöngu gullkarfi, 600 tonn upp úr sjó að verðmæti 164 milljónir. Að sögn Bjarna Ólafs Hjálmarssonar skipstjóra var góð veiði allan túrinn þrátt fyrir leiðindaveður, einkum framan af. Aflinn fékkst allur suðvestur og vestur af Reykjanesi, á Melsekk og Jökultungu. Barði millilandaði í Hafnarfirði fyrir um 10 dögum og eftir það tók einungis átta daga að fylla skipið á ný. „Það var mokveiði og stanslaus vinnsla, þannig að við getum ekki kvartað,“ sagði Bjarni Ólafur.
 
Barði mun liggja í höfn í um það bil vikutíma á meðan dálitlar lagfæringar verða gerðar á skipinu.