
Línuskip Vísis, Páll Jónsson GK og Sighvatur GK, lönduðu bæði í Grindavík í vikunni. Páll Jónsson landaði á mánudag og Sighvatur í gær. Afli skipanna var svipaður, Páll Jónsson var með 107 tonn og Sighvatur með 100 tonn. Heimasíðan heyrði í skipstjórum skipanna og fékk nánari upplýsingar um veiðarnar. Benedikt Jónsson, skipstjóri á Páli Jónssyni, sagði að áhöfnin væri ágætlega sátt við túrinn. “Þegar við fórum út var snarvitlaust veður en það gekk niður eftir einn og hálfan sólarhring og þá fengum við blíðuveður eins og það gerist best. Við fórum vestur í Jökultungu og fengum þar aflann í fjórum lögnum. Aflinn var blandaður og blandan var tiltölulega hagstæð. Þorskur var um 40% en síðan var þetta langa, ýsa, keila og karfi,” sagði Benedikt.
Óli Björn Björgvinsson, skipstjóri á Sighvati, var einnig þokkalega ánægður með veiðiferðina. “Fyrstu þrjár lagnirnar hjá okkur voru á Fjöllunum en síðan var farið og lagt við Dímonana og á Fylkishól. Í restina var haldið á Þjóðverjahólana og lögð þar ein og half lögn. Þetta gekk bara þokkalega og menn eru mjög sáttir við að þorskur var einungis 27% af aflanum. Menn kunnu sér ekki læti vegna veðursins. Þegar maður upplifir svona blíðu er brælutíðin að undanförnu fljót að gleymast,” sagði Óli Björn.
Bæði skip héldu til veiða á ný strax að löndun lokinni.